Ljósm. úr safni/ Skallagrímur.

Tólf stiga tap eftir hörkuleik

Skallagrímskonur mættu Íslandsmeisturum Vals í fyrsta leik liðsins eftir jólafrí. Leikið var í Reykjavík í gærkvöldi. Um hörkuleik var að ræða, en seint í leiknum náðu meistararnir yfirhöndinni og sigruðu með tólf stigum, 70-58.

Leikurinn fór fremur rólega af stað og Valur leiddi með fjórum stigum eftir sjö mínútna leik, 10-6. Þá áttu Skallagrímskonur góða rispu og höfðu fjögurra stiga forskot eftir upphafsfjórðunginn, 16-20. Borgnesingar héldu forystunni framan af öðrum leikhluta en Valskonur voru aldrei langt undan. Undir lok fyrri hálfleiks komust þær yfir og leiddu með tveimur stigum í hléinu, 35-33.

Skallagrímskonur byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti, náðu forystunni og leiddu lengst framan af þriðja leikhluta. Undir lok leikhlutans komst Valur hins vegar yfir að nýju og hafði fjögurra stiga forskot fyrir lokafjórðunginn. Þar réðu Íslandsmeistararnir ferðinni. Valskonur létu forystuna aldrei af hendi, þvert á móti juku þær hægt en örugglega og sigruðu að lokum með tólf stigum, 70-58.

Keira Robinson var atkvæðamest í liði Skallagríms með 18 stig, átta stoðsendingar og sjö fráköst. Maja Michalska skoraði 15 stig, Emilie Hesseldal var með ellefu stig og 14 fráköst, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði níu stig og tók ellefu fráköst og Mathilde Colding-Poulsen skoraði fimm stig.

Kiana Johnson setti upp þrennu í liði Vals, skoraði 16 stig, gaf 14 stoðsendingar og tók 13 fráköst. Hallveing Jónsdóttir skoraði 15 stig einnig, Dagbjört Samúelsdóttir var með 13 stig og Sylvía Rún Hálfdánardóttir skoraði ellefu.

Skallagrímskonur sitja í fimmta sæti deildarinnar með 16 stig, tveimur stigum á eftir Haukum í sætinu fyrir ofan. Þessi tvö lið mætast í næstu umferð. Leikur Skallagríms og Hauka fer fram í Borgarnesi á miðvikudaginn, 8. janúar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir