Jakob Svavar Sigurðsson, Íþróttamaður Akraness 2019, tekur við Friðþjófsbikarnum úr hendi Maríu Mistar Guðmundsdóttur.

Jakob Svavar er Íþróttamaður Akraness 2019

Jakob Svavar Sigurðsson, hestaíþróttamaður úr Hestamannafélaginu Dreyra, er Íþróttamaður Akraness 2019. Kjörinu var lýst við hátíðlega athöfn á sjöunda tímanum nú í kvöld, sem fyrr á þrettándanum. Valdís Þóra Jónsdóttir, kylfingur úr Golfklúbbnum Leyni varð önnur í kjörinu og Alexander Örn Kárason, kraftlyftingamaður úr Kraftlyftingafélagi Akraness, hreppti þriðja sætið.

Jakob Svavar hefur verið í fremstu röð íslenskra hestamanna um árabil, margoft orðið Íslandsmeistari auk þess að hafa orðið heimsmeistari. „Jakob er agaður keppnismaður en þó ávallt prúður og til fyrirmyndar. Hann hlaut mörg verðlaun á árinu fyrir góða reiðmennsku og prúðmennsku. Jakob sýnir hesta sína af öryggi og hefur fumlaust og létt taumsamband við hrossin sem undirstrikar hæfileika hestsins,“ sagði Hallbera Jóhannesdóttir um Jakob Svavar, en hún kynnti íþróttafólk ársins til leiks áður en greint var frá kjörinu. Það var síðan María Mist Guðmundsdóttir sem afhenti Jakobi Svavari Friðþjófsbikarinn, sem gefin er til minningar um Friðþjóf Arnar Daníelsson af móður hans og systkinum. Var hann nú afhentur í 29. skiptið. María Mist afhenti bikarinn fyrir hönd fjölskyldunnar, en hún er langafabarn Helga Daníelssonar, bróður Friðþjófs.

 

Kjörið á Íþróttamanni Akraness fer sem fyrr þannig fram að hvert íþróttafélag innan vébanda Íþróttabandalags Akraness tilnefnir sína fulltrúa. Þeir sem hlutu tilnefningu að þessu sinni eru, í stafrófsröð:

Alexander Örn Kárason, kraftlyftingamaður ársins

Andri Júlíusson, knattspyrnumaður Kára

Brynhildur Traustadóttir, sundmaður ársins

Chaz Malik Franklin, körfuknattleiksmaður ársins

Drífa Harðardóttir, badmintonmaður ársins

Emma Rakel Björnsdóttir, íþróttamaður Þjóts

Fríða Halldórsdóttir, knattspyrnukona ársins

Jakob Svavar Sigurðsson, hestaíþróttamaður ársins

Jóhann Ársæll Atlason, keilumaður ársins

Kristrún Bára Guðjónsdóttir, karatemaður ársins

Óttar Bjarni Guðmundsson, knattspyrnumaður ársins

Sóley Brynjarsdóttir, fimleikamaður ársins

Stefán Gísli Örlygsson, skotmaður ársins

Sylvía Þórðardóttir, klifrari ársins

Valdís Þóra Jónsdóttir, kylfingur ársins

 

Var þetta í annað sinn sem Jakobi Svavari hlotnast heiðursnafnbótin Íþróttamaður Akraness, en hann varð einnig efstur í kjörinu árið 2013. Valdísi Þóru Jónsdóttur hefur oftast hlotnast sá heiður, eða sjö sinnum en næstar á eftir henni koma sundkonurnar Ragnheiður Runólfsdóttir og Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir, sem báðar voru sex sinnum efstar í kjörinu.

Íþróttamaður Akraness var nú valinn í 45. sinn. Fyrst var kosið árið 1965, næst árið 1972 og síðan hefur það verið gert árlega frá 1977. Konur hafa 22 sinnum orðið efstar í kjörinu en karlar einu sinni oftar, eða 23 sinnum. Sundfélag Akraness er sigursælast aðildarfélaga ÍA með 21 titil, Golfklúbburinn Leynir kemur þar á eftir með 11 titla og fulltrúar knattspyrnufélags ÍA hafa tíu sinnum fagnað sigri.

 

Styrkir vegna Íslands- og bikarmeistara

Akraneskaupstaður veitti á athöfninni sérstaka styrki og viðurkenningar þeim aðildarfélögum ÍA sem eignuðust Íslands- og/eða bikarmeistara í efstu deildum á liðnu ári. Það var Ragnar Baldvin Sæmundsson, fultrúi skóla og frístundasviðs, sem afhenti forsvarsmönnum félaganna styrkina. Ágúst Júlíusson, formaður Sundfélags Akraness, Einar Örn Guðnason, formaður Kraftlyftingafélags Akraness og Kolbrún Pétursdóttir, formaður Badmintonfélags Akraness, veittu styrkjunum viðtöku fyrir hönd sinna félaga.

Líkar þetta

Fleiri fréttir