María Björg Gunnarsdóttir. Ljósm/ glh.

Með síðustu ábúendum á heiðarbýlinu

Rætt við Maríu Björgu Gunnarsdóttur um æskuárin í Fornahvammi

 

Fornihvammur er eyðibýli efst í Norðurárdal í Borgarfirði sem á árum fyrr var síðasti bærinn áður en lagt var á Holtavörðuheiði að sunnanverðu. Þar var um tíma rekin umfangsmikil ferðaþjónusta enda mikil umferð sem rann í gegnum hlaðið. Þegar starfsemin var í blóma var rekið gistiheimili og veitingastaður í húsinu og var Fornihvammur vinsæll áningarstaður fólks og áætlunarbílar milli Akureyrar og Reykjavíkur áttu þar fasta viðkomu.

María Björg Gunnarsdóttir er vel kunnug Fornahvammi þar sem hún ólst upp ásamt systkinum sínum þremur og hugsar hlýtt til staðarins. „Mamma og pabbi fluttu með fjögur lítil börn í Fornahvamm. Það var hrikalega langt að keyra þangað á þessum tíma, samgöngurnar voru langt í frá eins og þær eru í dag. Við keyrðum þangað á Weepon og ætluðum aldrei að verða komin,“ segir María við blaðamann Skessuhorns þegar hún minnist bílferðarinnar norður, sem ætlaði engan endi að taka eins og hún orðar það. María rifjar upp fleiri sögur frá tímanum í Fornahvammi, þegar fjölskyldan rak gistiheimili og veitingastað og þeim stöðuga gestagangi sem því fylgdi, en einnig var þar stórt fjárbú og svínahús fyrir tíu gyltur og afkvæmi að auki.

Síðasti bærinn í dalnum

Fjölskyldan flutti frá Reykjavík í Fornahvamm árið 1957. „Mömmu og pabba langaði að breyta til. Pabbi vildi komast í sveitina og vinna sveitastörf. Mamma aftur á móti var alla sína ævi að elda mat og hugsa um fólk svo það skipti hana litlu máli hvar hún starfaði við það,“ segir María. Gunnar Guðmundsson, faðir Maríu, var ættaður að austan. Ungur sveitastrákur flutti hann suður til Reykjavíkur til að vinna. Þar kynntist hann móður Maríu, Lilju Pálsdóttur, sem hann svo giftist og saman byggðu þau sér hús við Suðurlandsbrautina þar sem Ármúli er í dag. Fornihvammur var svo auglýstur til leigu og ákváðu þau hjónin að slá til.

„Fornihvammur var síðasti bærinn í dalnum og var fjölfarinn viðkomustaður milli landshluta. Fólk kom við í hvert skipti sem það átti leið hjá. Þarna var því stöðugt rennerí,“ rifjar María upp. Auk veitingastaðar þá var boðið upp á gistingu. Í Fornahvammi voru 13 gistiherbergi, allt frá tveggja manna herbergjum upp í sex manna herbergi en á þessum tíma var Holtavörðuheiðin bara opnuð á þriðjudögum og föstudögum yfir vetrartímann vegna þess að ekki þótti ástæða til þess að opna oftar en það. „Það var oft mikið stuð á bænum. Norðurleið stoppaði alltaf hjá okkur, Hólmavíkurrútan og Skagastrandarbíllinn líka. Þetta voru stundum tvær, þrjár rútur fullar af fólki sem komu í hádegismat. Svo kom annað eins að norðan og það kom í miðdegiskaffi. Og svo stundum, þegar allt var ófært, þá voru bara dýnur út um allt hús og rúm full af alls konar fólki,“ segir hún og hlær.

Sjá nánar í Jólablaði Skessuhorns sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir