Áskell Þórisson í Ægissíðu sýnir hér stoltur karföfluuppskeruna.

Markmiðið var að bændur biðu eftir Bændablaðinu

Áskell Þórisson ritstjóri lítur yfir farinn veg við blaðamennsku og önnur störf

Nýbýlið Ægissíða í Hvalfjarðarsveit lætur ekki mikið yfir sér. Það er byggt á spildu úr landi Másstaða og kúrir húsið í skjóli við mön fjallmegin við Innnesveginn. Þar er kominn myndarlegur trjálundur. Litlar skógarplöntur fá góðan aðbúnað með því að óseldar bækur eru lagðar við stofn þeirra til að bægja illgresi frá og síðar meir breytast þær í næringu. Kartöflur eru ræktaðar og geymdar í jarðhýsi á lóðinni.

Húsið byggðu hjónin Áskell Þórisson og Vilborg Aðalsteinsdóttir og ákváðu að gera að íverustað sínum þegar aldurinn færðist yfir. Nú hallar að starfslokum hjá þeim báðum og hyggjast þau nú byggja við húsið og koma sér þar enn betur fyrir. Þau hafa í hyggju að selja eða leigja húsið sitt í Kópavogi og segjast njóta þess að vera í sveitinni. Tengsl þeirra við Vesturland eru ekki mikil, önnur en þau að Áskell starfaði um tíma sem kynningarstjóri Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri en fjölmarga þekkir hann frá fyrri störfum sínum. Hann var blaðamaður að ævistarfi, var fyrsti blaðamaðurinn sem ráðinn var í fullt starf utan höfuðborgarsvæðisins, var fyrst á Tímanum en lengi hjá Degi á Akureyri, þar sem hann á sínar rætur, en suður fyrir heiðar fluttu þau fyrir mörgum árum.

Áskell stofnaði Bændablaðið fyrir Bændasamtökin, var fyrsti ritstjóri blaðsins og segir að blaðamannsbakterían sé ódrepandi, ekki ósvipað og miltisbrandurinn. Fyrir nokkrum árum hætti hann á Bændablaðinu, var um tíma kynningarstjóri Landbúnaðarháskóla Íslands en nú seinni árin hjá Landgræðslunni. Áskeli er annt um umhverfið og segir Íslendinga þurfa að taka sig á í þeim efnum. Við lítum yfir feril Áskels.

Byrjaði með útgáfu í skátafélagi

„Á Akureyri sleit ég barnsskónum. Ég fékk fjölmiðlabakteríuna ansi snemma og ljóst hvað í stefndi. Þegar ég var í skátunum fyrir margt löngu gáfum við félagarnir út blað sem fjallaði um skátalífið. Ég minnist þess að við fengum að slá inn texta á IBM kúluritvél á skrifstofu Slippstöðvarinnar á Akureyri. Við notuðum stensla sem síðan voru settir í fjölritunarvél. Þetta var gaman í byrjun en þegar við nenntum ekki að skrifa meira, datt einhverjum það snjallræði í hug að setja í texta að fjölritunarvélin hefði bilað og því væri ekki hægt að koma með fleiri fréttir! Auðvitað héldu þessi rök ekki vatni en við vorum hamingjusamir með fjölritaða blaðið okkar, töldum okkur hokna af reynslu. Þar með held ég að takturinn hafi verið sleginn. Þarna var kviknaður einhver neisti sem ekki hefur tekist að slökkva.“

Sjá nánar í Jólablaði Skessuhorns sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir