Isaiah Coddon sækir og Benjamín Ómar Kristjánsson er til varnar. Ljósm. glh.

Snæfell sigraði Vesturlandsslaginn

Vesturlandsslagur var í 1. deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi þegar Skallagrímur og Snæfell mættust í Borgarnesi. Um jafnan og spennandi leik var að ræða en að lokum fór svo að Snæfellingar sigruðu með 110 stigum gegn 101 stigi Borgnesinga.

Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks. Þá tóku Skallagrímsmenn smá rispu áður en Snæfellingar náðu góðum kafla og leiddu eftir fyrsta leikhlutann, 25-29. Liðin fylgdust að meira og minna allan annan leikhluta og skiptust á að leiða leikinn. Þegar flautað var til hálfleiks.

Skallagrímsmenn höfðu heldur yfirhöndina í þriðja leikhluta, leiddu framan af með örfáum stigum en Snæfellingar fylgdu þeim eins og skugginn. Undir lok leikhlutans náðu Borgnesingar góðum kafla og höfðu tíu stiga forskot fyrir lokafjórðunginn, 80-70. En Snæfellingar voru hvergi af baki dottnir. Þeir minnkuðu muninn í þrjú stig í upphafi leikhlutans og jöfnuðu metin í 91-91 þegar fjórar mínútur lifðu leiks. Borgnesingar náðu góðri rispu upp frá því og komust í 100-95. Þá tóku Snæfellingar smá sprett, jöfnuðu metin og komust síðan yfir í stöðunni 100-102 þegar mínúta lifði leiks. Þá hættu Borgnesingar að hitta úr skotum sínum, en Snæfellingum brást ekki bogalistin. Snæfell sigraði að lokum með níu stigum, 101-110.

 

Tveir yfir fjörtíu stig

Isaiah Coddon átti stórleik í liði Skallagríms, skoraði 41 stig, tók sjö fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Kristján Örn Ómarsson skoraði 17 stig, tók fimm fráköst og varði fimm skot, Marinó Þór Pálmason skoraði 16 stig og gaf 14 stoðsendingar, Almar Örn Björnsson var með tíu stig og tólf fráköst, Hjalti Ásberg Þorleifsson átta stig og sex fráköst, Kristófer Gíslason sex stig og Arnar Smári Bjarnason skoraði þrjú.

Anders Gabriel Andersteg átti stórleik fyrir Snæfell, skoraði 41 stig, tók níu fráköst og gaf sex stoðsendingar. Aron Ingi Hinriksson skoraði 29 stig og gaf fimm stoðsendingar, Pavel Kraljic var með tólf stig og 15 fráköst, Benjamín Ómar Kristjánsson skoraði tíu stig, tók sjö fráköst og gaf fimm stoðsendingar, Guðni Sumarliðason var með sjö stig, Eiríkur Már Sævarsson fimm, Ísak Örn Baldursson fjögur og Viktor Brimnir Ásmundarson skoraði tvö stig.

 

Staðan í deildinni

Úrslit leiksins gera það að verkum að liðin hafa sætaskipti í deildinni. Snæfellingar sitja nú í sjöunda sæti með fjögur stig og Skallagrímsmenn eru í því áttunda með jafn mörg stig. Fjögur stig eru í Álftnesinga í sætinu fyrir ofan en Sindri vermir botnsætið með tvö stig.

Bæði lið leika næst föstudaginn 20. desember næstkomandi. Snæfellingar taka á móti Hamri í Hólminum en Skallagrímsmenn mæta liði Vestra á Ísafirði.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

21 smit í gær

Alls greindist 21 innanlandssmit Covid-19 faraldursins í gær (fimmtudag). Sjö þeirra sem greindust voru í sóttkví við greiningu, en 14... Lesa meira