Valdís Þóra Jónsdóttir. Ljósm. úr safni.

Valdís Þóra og Guðmundur Ágúst kylfingar ársins

Valdís Þóra Jónsdóttir úr Golfklúbbnum Leyni og Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr Golfklúbbi Reykjavíkur eru kylfingar ársins 2019. Golfsamband Íslands greindi frá vali sínu á fimmtudag. Er þetta í 22. sinn sem tveir kylfingar eru valdir, karl og kona. Valdís hefur þrisvar áður hlotið þessa viðurkenningu en Guðmundi Ágústi hlotnast hún nú í fyrsta sinn.

Valdís Þóra lék sitt þriðja tímabil á Evrópumótaröðinni í golfi á liðnu ári og endaði tímabilið í 71. sæti stigalista mótaraðarinnar. Hún náði sínum besta árangri í Ástralíu í mars þegar hún hafnaði í 5. sæti. Á því móti var hún lengi vel í forystu en hún lék fyrsta hringinn á 63 höggum, sem var besta skor mótsins. „Valdís komst í gegnum niðurskurðinn á 7 af 14 mótum á Evrópumótaröðinni á árinu. Hún komst inn á 2. stig úrtökumótsins fyrir LPGA atvinnumótaröðina í Bandaríkjunum og verður með takmarkaðan keppnisrétt á Symetra atvinnumótaröðinni á næsta tímabili,“ segir á vef GSÍ.

Guðmundur Ágúst var Íslandsmeistari í höggleik í fyrsta skipti á árinu. Hann lék á Nordic Golf League atvinnumannamótaröðinni þar sem hann sigraði á þremur mótum og vann sér um leið þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni, sem er næst sterkasta atvinnumannamótaröð Evrópu. Auk þess komst Guðmundur inn á lokaúrtökumótið fyrir Evrópumótaröðina. Hann hóf árið í 1656. sæti á heimslista atvinnumanna en er nú í 558. sæti, efstur Íslendinga.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

21 smit í gær

Alls greindist 21 innanlandssmit Covid-19 faraldursins í gær (fimmtudag). Sjö þeirra sem greindust voru í sóttkví við greiningu, en 14... Lesa meira