Valdís Þóra Jónsdóttir í keppni á Evrópumótaröðinni.

Valdís Þóra og Guðmundur Ágúst kylfingar ársins

Valdís Þóra Jónsdóttir úr Golfklúbbnum Leyni og Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr Golfklúbbi Reykjavíkur eru kylfingar ársins 2019. Golfsamband Íslands greindi frá vali sínu á fimmtudag. Er þetta í 22. sinn sem tveir kylfingar eru valdir, karl og kona. Valdís hefur þrisvar áður hlotið þessa viðurkenningu en Guðmundi Ágústi hlotnast hún nú í fyrsta sinn.

Valdís Þóra lék sitt þriðja tímabil á Evrópumótaröðinni í golfi á liðnu ári og endaði tímabilið í 71. sæti stigalista mótaraðarinnar. Hún náði sínum besta árangri í Ástralíu í mars þegar hún hafnaði í 5. sæti. Á því móti var hún lengi vel í forystu en hún lék fyrsta hringinn á 63 höggum, sem var besta skor mótsins. „Valdís komst í gegnum niðurskurðinn á 7 af 14 mótum á Evrópumótaröðinni á árinu. Hún komst inn á 2. stig úrtökumótsins fyrir LPGA atvinnumótaröðina í Bandaríkjunum og verður með takmarkaðan keppnisrétt á Symetra atvinnumótaröðinni á næsta tímabili,“ segir á vef GSÍ.

Guðmundur Ágúst var Íslandsmeistari í höggleik í fyrsta skipti á árinu. Hann lék á Nordic Golf League atvinnumannamótaröðinni þar sem hann sigraði á þremur mótum og vann sér um leið þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni, sem er næst sterkasta atvinnumannamótaröð Evrópu. Auk þess komst Guðmundur inn á lokaúrtökumótið fyrir Evrópumótaröðina. Hann hóf árið í 1656. sæti á heimslista atvinnumanna en er nú í 558. sæti, efstur Íslendinga.

Líkar þetta

Fleiri fréttir