Ljósm. Skallagrímur.

Höfðu ekki erindi sem erfiði

Skallagrímskonur töpuðu naumlega gegn Keflvíkingum, 69-63, þegar liðin mættust í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik í gærkvöldi. Leikið var suður með sjó. Eftir að hafa misst Keflavíkurliðið langt fram úr sér í síðari hálfleik náðu Skallagrímskonur að hleypa mikilli spennu í leikinn undir lokin. Því miður dugði það þeim þó ekki til að fá eitthvað út úr leiknum.

Mikið jafnræði var með liðunum í upphafsfjórðungnum og þau skiptust á að leiða. Skallagrímskonur náðu smá rispu undir lok leikhlutans og höfðu fjögurra stiga forskot að honum loknum, 17-13. En þær áttu síðan afleitan annan leikhluta, þar sem þær skoruðu aðeins þrjú stig. Annar leikhluti var um margt undarlegur, því Keflavík var líka stigalaust á löngum kafla. En undir lok fyrri hálfleiks náði heimaliðið góðum spretti og fór með tíu stiga forskot inn í hléið, 30-20.

Keflavíkurliðið var heldur sterkara í þriðja leikhlutanum og náði að bæta fimm stigum við forystu sína og leiddi 55-40 fyrir lokafjórðunginn. Þar voru Skallagrímskonur hins vegar betri og eftir því sem leið á minnkaði forskotið stöðugt. Þegar rétt rúm mínúta lifði leiks var forysta Keflavíkur komin niður í fjögur stig. Nær komust Skallagrímskonur hins vegar ekki. Keflavík sigraði að lokum með sex stigum, 69-63.

Emilie Hesseldal var atkvæðamest í liði Skallagríms. Hún skoraði 28 stig og reif niður 18 fráköst. Keira Robinson skoraði 14 stig og tók fimm fráköst, Maja Michalska skoraði tólf stig og tók 13 fráköst, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir var með fimm stig og sex fráköst og Mathilde Colding-Paulsen skoraði fjögur stig.

Daniela Wallen Morillo var stigahæst í liði Keflavíkur með 18 stig, en hún tók 15 fráköst og gaf sjö stoðsendingar að auki. Emelía Ósk Gunnarsdóttir var með tólf stig og sex fráköst og Anna Ingunn Svansdóttir skoraði tólf stig einnig.

Skallagrímskonur hafa 14 stig í fjórða sæti deildarinnar, jafn mörg og Haukar í sætinu fyrir neðan en fjórum stigum minna en KR. Næsti leikur Skallagrímskvenna er útileikur gegn Breiðabliki miðvikudaginn 18. desember.

Líkar þetta

Fleiri fréttir