Helga Hjördís Björgvinsdóttir og liðsfélagar hennar í Snæfelli höfðu ekki erindi sem erfiði gegn Haukum. Ljósm. sá.

Eltu allan leikinn

Snæfell og Haukar mættust í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik í gærkvöldi. Leikið var í Hafnarfirði. Haukar leiddu nánast allan leikinn og þó að Snæfellskonur hafi gert atlögu að þeim í þriðja leikhluta sigruðu Haukar að endingu með 20 stigum, 101-81.

Haukakonur náðu undirtökunum snemma leiks. Varnarleikur Snæfellskvenna var ekki upp á marga fiska framan af, Haukar gengu á lagið og leiddu með 15 stigum eftir fyrsta leikhluta, 33-18. Snæfellskonur léku betur í öðrum fjórðungi og náðu að kroppa fjögur stig af forystu Hauka áður en flautað var til hálfleiks, 48-37.

Snæfellskonur komu ákveðnar til síðari hálfleiks. Með góðum varnarleik náðu þær hægt og þétt að minnka muninn í sex stig fyrir lokafjórðunginn, 66-60. En Haukakonur tóku við sér á nýjan leik í fjórða leikhlutanum. Þær náðu tvisvar níu stiga rispum sem Snæfellskonur áttu ekki svar við. Fór því svo að lokum að Haukar sigruðu með 101 stigi gegn 81.

Emese Vida var atkvæðamest í liði Snæfell. Hún skoraði 24 stig og reif niður 18 fráköst. Veera Pirttinen skoraði 19 stig, Gunnhildur Gunnarsdóttir skoraði 13 stig og tók sjö fráköst, Anna Soffía Lárusdóttir var með tíu stig og fimm fráköst, Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði sjö stig og þær Helga Hjördís Björgvinsdóttir og Rebekka Rán Karlsdóttir skoruðu fjögur stig hvor.

Randi Brown var atkvæðamest í liði Hauka með 24 stig, níu fráköst og átta stoðsendingar. Jennetje Guijt skoraði 21 stig, Lovísa Björt Henningsdóttir var með 18 stig og sjö fráköst og Rósa Björk Pétursdóttir skoraði tólf stig.

Snæfell situr eftir leikinn í sjötta sæti deildarinnar með sex stig og er átta stigum á eftir Haukum en með tveggja stiga forskot á Breiðablik. Næsti leikur Snæfellskvenna er gegn KR miðvikudaginn 18. desember. Hann verður leikinn í Reykjavík.

Líkar þetta

Fleiri fréttir