Þráinn í útkalli á Akranesi síðasta haust. Ljósm. kgk.

„Að vera slökkviliðsstjóri er gríðarlegt ábyrgðarstarf“

– segir Þráinn Ólafsson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar

 

„Ég var skipaður í Slökkvilið Akraness af bæjaryfirvöldum árið 1974 en tók við starfi slökkviliðsstjóra í september 2005, eftir skyndilegt fráfall Guðlaugs Þórðarsonar, forvera míns í starfi,“ segir Þráinn Ólafsson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar, í samtali við Skessuhorn.

Nú hillir undir starfslok Þráins. Hann er orðinn 67 ára gamall og stígur til hliðar á áramótum eftir hvorki fleiri né færri en 45 ár í slökkviliðinu og þar af 14 ár við stjórnvölinn.

„Að vera slökkviliðsstjóri er gríðarlegt ábyrgðarstarf,“ segir Þráinn og heldur áfram; „Slökkviliðsstjóri ber ábyrgð á því gagnvart bæjarstjórn að staðið sé við lög og reglur um allt sem viðkemur slökkvistarfi, brunavörnum, eldvarnaeftirliti, mengunarvörnum og fleiru,“ segir hann. „Honum ber skylda til að hafa eftirlit með brunavörnum á starfssvæðinu og koma á framfæri athugasemdum um það sem þarf að laga. Þá hefur slökkviliðsstjóri rækt þær skyldur sínar. Hann ber einnig ábyrgð á menntun sinna slökkviliðsmanna og öryggi þeirra á vettvangi þegar farið er í útkall,“ nefnir Þráinn sem dæmi.

„Núna er ný brunavarnaáætlun til umfjöllunar hjá bæjaryfirvöldum. Hún er mjög ítarleg og samhliða henni er gerð viðbragðsáætlun. Slökkviliðsstjóri kemur að allri þeirri vinnu. Eldvarnareftirlitið er líka mjög umfangsmikið. Á starfssvæði Slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar eru margir staðir sem þarf að hafa reglulegt eftirlit með. Hér eru þrír grunnskólar, fimm leikskólar, sjúkrahús og stórt dvalarheimili, mörg samkomuhús og gististaðir, að ógleymdu stóriðjusvæðinu á Grundartanga, olíubirgðastöðinni í Hvalfirði og auðvitað Hvalfjarðargöngum. Fjölmargir staðir sem þarf að heimsækja reglulega og skila skýrslu um,“ segir slökkviliðsstjórinn. „Þess utan annast slökkviliðið mengunarvarnir og aðstoð við fólk sem er klemmt inni í bílflökum, sem er töluvert umfangsmikið verkefni líka,“ bætir hann við. „Það má ekkert fara úrskeiðis í starfi slökkviliðsstjórans. Ef eitthvað misferst getur það stofnað lífi og heilsu fólks í hættu.“

Nánar er rætt við Þráinn í Skessuhorni vikunnar sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir