Með takmarkaðan þátttökurétt á næsta ári

Valdís Þóra Jónsdóttir hafnaði í 50. sæti á lokamóti Evrópumótaraðarinnar í golfi sem fram fór í Kenýa um síðustu helgi. Eftir að hafa lyft sér upp í 27. sæti mótsins með frábærum þriðja keppnishring lauk hún keppni með sveiflukenndum hring í gær. Eftir níu holur var Valdís á sex höggum yfir pari, eftir að hafa fengið skolla, skramba og þrefaldan skolla. Á síðari níu holunum var annar bragur á leik Valdísar. Hún hafði unnið þrjú högg til baka þegar hún kom á lokaholuna en þar fékk hún skramba og endaði því hringinn á fimm yfir pari og mótið á átta höggum yfir pari samtals. Skilaði það henni í 50. sæti.

Úrslitin gera það að verkum að Valdís náði ekki að lyfta sér upp í topp-70 á stigalista mótaraðarinnar til að halda fullum keppnisrétti á Evrópumótaröð kvenna. Hún var reyndar eins nálægt því og hægt er, því hún endar árið í 71. sæti styrkleikalistans og verður því með takmarkaðan þátttökurétt á mótaröðinni á næsta tímabili. Hún getur síðan farið í úrtökumót fyrir mótaröðina í janúar til að öðlast fullan keppnisrétt að nýju.

Líkar þetta

Fleiri fréttir