Bjarney Hinriksdóttir kom fimm hvolpum á Krít til bjargar og ætlar nú að flytja þá til Íslands. Ljósm. úr einkasafni.

Kom fimm hvolpum til bjargar og ætlar að flytja þá heim til Íslands

Skagakonan Bjarney Hinriksdóttir hélt til Krítar í lok júní síðastliðins þar sem hún ætlaði að verja sumrinu. Dvölin varð þó lengri þegar Bjarney fékk upp í hendurnar fimm litla móðurlausa hvolpa sem hún þurfti að hugsa um. Par á ferðalagi fann hvolpana við hraðbraut og tók þá upp á hótel. Þegar parið þurfti svo að halda heim á leið tók Bjarney að sér að hugsa um hvolpana og leitar hún nú til almennings um aðstoð við að fjármagna flutnings hvolpanna heim til Íslands.

 

Tók sér listamannaleyfi og hélt út

Aðspurð segist Bjarney vera mikill dýravinur, kaffiunnandi og ævintýrakona. Hún þrífst á sköpun og hefur mikinn áhuga á andlegum þroska, heilsu og vellíðan. Hún starfar sem grafískur hönnuður og vefhönnuður og er jóga- og núvitundarkennari og rekur Jógastúdíó í miðbæ Reykjavíkur. Hún fór til Krítar með það markmið að einbeita sér að hönnun og bæta við þekkinguna á því sviði. „Það getur verið hollt að skipta um umhverfi til að fá innblástur og ég ákvað að taka mér smá frí frá jógakennslunni og verja sumrinu á Krít. Ég bjó mér því til mitt eigið listamannaleyfi og hélt út. Plönin mín breyttust auðvitað þegar ég fékk hvolpana til mín og þurfti að afla mér allra upplýsinga um hvernig átti að ala upp hunda,“ segir Bjarney í samtali við Skessuhorn. Fljótlega fór allur hennar tími í að hugsa um hvolpana. „Ég hef sannarlega bætt við mig þekkingu, en bara á öðrum sviðum en ég bjóst við,“ segir hún brosandi.

 

Farnir að taka sitt pláss

Eins og fyrr segir tók Bjarney við hvolpunum af pari sem fann þá á ferðalagi um Krít. „Þegar símtalið kom hugsaði ég mig ekki tvisvar um, enda var ég með auka herbergi og stórar svalir. Hversu erfitt gæti það verið að sjá um fimm litla hvolpa? Það er auðvitað fátt sætara en hvolpar og auðvitað fönguðu þeir hjarta mitt strax á fyrsta degi,“ segir Bjarney. Hvolparnir eru fjórar tíkur og einn rakki og voru þau rétt um sex vikna þegar Bjarney fékk þau. Parið sem fann þau hafði þá gefið þeim nöfnin Kala, Kissi, Funi, Chania og Balos eftir fallegum stöðum á Krít sem þau höfðu heimsótt. Hvolparnir eru núna orðnir sex og hálfs mánaða. „Þau taka sitt pláss, borða mikið og stækka ört. Þau eru Labrador blendingar og því ansi stórir og stæltir hundar,“ segir Bjarney.

Þeir sem vilja leggja Bjarneyju og hundunum lið geta fundið „Hin Frábæru Fimm“ á Karolina Fund á slóðinni: https://www.karolinafund.com/project/view/2639. Þá er hægt að fylgjast með þeim á Facebook undir heitinu The Fabulous Five.

Sjá nánar í Skessuhorni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir