Isaiah Coddon og félagar hans í Skallagrími máttu sætta sig við stórt tap gegn Breiðabliki. Ljósm. Skallagrímur.

Borgnesingar burstaðir

Skallagrímsmenn máttu játa sig sigraða gegn Breiðabliki, 131-89, þegar liðin mættust í 1. deild karla í körfuknattleik á sunnudagskvöld. Leikið var í Kópavogi.

Heimamenn höfðu undirtökin frá fyrstu mínútu. Þeir voru öflugri í upphafsfjórðungnum og leiddu með tíu stigum að honum loknum, 32-22. Þeir héldu síðan áfram að auka forskot sitt jafnt og þétt í öðrum  leikhluta og voru 21 stigi yfir þegar hálfleiksflautan gall, 68-47.

Blikar komu ákveðnir til síðari hálfleiks og komust 32 stigum yfir snemma í þriðja leikhluta. Þá tók Skallagrímur smá rispu og minnkaði muninn í 87-66, en Blikar áttu lokaorðið í leikhlutanum og leuddu 97-69 fyrir lokafjórðunginn. Þar juku þeir forskot sitt enn frekar og sigruðu að lokum með 42 stigum, 131-89.

Isaiah Coddon var stigahæstur í liði Skallagríms með 28 stig og hann tók sex fráköst að auki. Kristján Örn Ómarsson skoraði tólf stig og tók sex fráköst, Hjalti Ásberg Þorleifsson skoraði ellefu stig, Almar Örn Björnsson skoraði tíu stig og tók sex fráköst, Marinó Þór Pálmason skoraði níu stig, tók fimm fráköst og gaf fimm stoðsendingar, Ásbjörn Baldvinsson skoraði sjö stig og þeir Arnar Smári Bjarnason og Gunnar Örn Ómarsson skoruðu sex stig hvor.

Árni Elmar Hrafnsson var atkvæðamestur Blika með 23 stig, Snorri Vignisson skoraði 20, Larry Thomas var með 18 stig, níu stolna bolta, fimm fráköst og fimm stoðsendingar, Sveinbjörn Jóhannesson skoraði 14 stig og tók sjö fráköst, Steinar Snær Guðmundsson skoraði ellefu stig og Hilmar Pétursson var með tíu stig og tólf stoðsendingar.

Skallagrímur hefur fjögur stig í sjöunda sæti deildarinnar, tveimur stigum meira en liðin fyrir neðan en fjórum stigum á eftir liði Álftnesinga. Næsti leikur Skallagríms er Vesturlandsslagur gegn Snæfelli í Borgarnesi á morgun, fimmtudaginn 12. desember.

Líkar þetta

Fleiri fréttir