Anna Soffía Lárusdóttir og liðsfélagar hennar í Snæfelli hafa lokið þátttöku í bikarnum þetta árið. Ljósm. sá.

Snæfell úr leik í bikarnum

Snæfellskonur eru úr leik í Geysisbikar kvenna í körfuknattleik, eftir tap gegn ríkjandi bikarmeisturum Vals. Leik lauk í Stykkishólmi núna fyrir skemmstu með sjö stiga sigri Vals, 62-69.

Snæfellskonur voru öflugri í upphafsfjórðungnum  og komust í 18-8 seint í leikhlutanum. Þá tóku Valskonur við sér og náðu að minnka muninn niður í eitt stig áður en fyrsti leikhluti var úti, 24-23. Annar leikhluti var æsispennandi. Snæfell leiddi framan af en gestirnir fylgdu þeim eins og skugginn. Seint í fyrri hálfleik komst Valsliðið yfir og leiddi mest með átta stigum, en með góðum lokaspretti sáu Snæfellskonur til þess að aðeins munaði einu stigi í hléinu. Valur leiddi í hálfleik, 40-41.

Leikurinn var í járnum í þriðja leikhluta. Valur leiddi en Snæfellskonur fylgdu fast á hæla þeirra lengst af. Það var ekki fyrr en undir lok leikhlutans sem gestirnir náðu smá rispu og sjö stiga forskoti fyrir lokafjórðunginn, 51-58. Lítið var skorað í fjórða leikhluta. Snæfellskonur minnkuðu muninn í fimm stig og þannig var staðan á stigatöflunni þegar örfáar mínútur lifðu leiks. Þeim tókst hins vegar ekki að gera atlögu að forystu Vals á lokamínútunum og því fór sem fór. Valur sigraði, 62-69 og Snæfellskonur hafa því lokið þátttöku sinni í bikarkeppninni að þessu sinni.

Emese Vida var atkvæðamest í liði Snæfells, skoraði 20 stig og reif niður 23 fráköst, auk þess að gefa fimm stoðsendingar. Anna Soffía Lárusdóttir skoraði 19 stig og Gunnhildur Gunnarsdóttir var með 14 stig, sex stoðsendingar, fimm fráköst og fjóra stolna bolta. Veera Pirttinen skoraði sex stig, Tinna Guðrún Alexandersdóttir var með tvö stig og Rebekka Rán Karlsdóttir eitt.

Í liði Vals var Kiana Johnson stigahæst með 21 stig, auk þess að taka átta fráköst og gefa sex stoðsendingar. Hallveig Jónsdóttir skoraði 16 stig og Dagbjört Samúelsdóttir var með tíu stig.

Líkar þetta

Fleiri fréttir