Ljósm. úr safni/ Skallagrímur.

Skallagrímskonur fundu ekki taktinn

Skallagrímskonur fundu sig ekki gegn KR á útivelli, þegar liðin mættust í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik í gær. Að lokum fór svo að Reykvíkingar sigruðu með 83 stigum gegn 60 stigum Borgnesinga.

KR-ingar byrjuðu leikinn ágætlega á meðan Skallagrímskonur áttu erfitt með að finna taktinn. hægt en örugglega náði heimaliðið þannig tólf stiga forskoti áður en upphafsfjórðungurinn var úti, 23-11. Skallagrímsliðið var mjög ákveðið í öðrum leikhluta, minnkaði forskot KR-inga jafnt og þétt og komst að lokum yfir í stöðunni 36-37. En KR átti lokaorðið í fyrri hálfleik og leiddi með sjö stigum í hléinu, 44-37.

Skallagrímskonur áttu slakan þriðja leikhluta, þar sem þær fundu sig engan veginn og skoruðu aðeins átta stig. KR-ingar áttu heldur ekkert frábæran þriðja leikhluta, en náðu þó að skoða 16 stig og höfðu því 15 stiga forskot fyrir lokafjórðunginn, 60-45. Heimaliðið jók forystuna lítið eitt í lokafjórðungnum og vann að lokum öruggan sigur, 83-60.

Keira Robinson skoraði 21 stig fyrir Skallagrím, Emilie Hesseldal var með 20 stig og ellefu fráköst og Maja Michalska skoraði tólf stig. Mathilde Colding-Poulsen skoraði þrjú stig, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir var með tvö stig, sex fráköst og sex stoðsendingar og Ingibjörg Rósa Jónsdóttir skoraði tvö stig.

Sanja Orazovic skoraði 21 stig fyrir KR-inga og tók ellefu fráköst, Hildur Björg Kjartansdóttir skoraði 14 stig og tók átta fráköst, Danielle Rodriguez skoraði 13 stig og Ástrós Lena Ægisdóttir var með ellefu stig.

Skallagrímskonur sitja í fjórða sæti deildarinnar með 14 stig, tveimur stigum á eftir KR en með tveggja stiga forskot á Hauka í sætinu fyrir neðan. Næsti leikur liðsins er útileikur gegn Keflavík miðvikudaginn 11. desember.

Líkar þetta

Fleiri fréttir