Gunnhildur Gunnarsdóttir lætur vaða fyrir utan þriggja stiga línuna. Ljósm. sá.

Góður sigur Snæfells

Snæfell vann góðan sigur á Grindavík, 87-75, þegar liðin mættust í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik í gærkvöldi. Leikið var í Stykkishólmi.

Leikurinn var jafn og spennandi framan af. Snæfellskonur leiddu með þremur stigum eftir upphafsfjórðunginn, 23-20. En gestirnir voru ekki langt undan og snemma í öðrum leikhluta náðu þeir forystunni. Eftir að liðin hentu forskotinu á milli sín næstu mínúturnar náðu Grindvíkingar góðum kafla undir lok fyrri hálfleiks og leiddu með sex stigum í hléinu, 41-47.

Snæfellskonur komu mjög ákveðnar til síðari hálfleiks og voru ekki lengi að snúa taflinu sér í vil. Um miðjan þriðja leikhluta voru þær komnar yfir á nýjan leik. Þær héldu uppteknum hætti út leikhlutann og höfðu ellefu stiga forskot fyrir lokafjórðunginn, 69-58. Snæfell var sterkara í fjórða leikhluta, komst mest 16 stigum yfir þegar hann var hálfnaður. Grindvíkingar náðu að laga stöðuna aðeins áður en leikurinn var úti, en Snæfell vann að lokum góðan tólf stiga sigur, 87-75.

Gunnhildur Gunnarsdóttir átti frábæran leik fyrir Snæfell á báðum endum vallarins. Hún  skoraði 27 stig, gaf átta stoðsendingar, tók sex fráköst, stal fjórum boltum og varði tvö skot. Veera Pirttinen skoraði 18 stig og tók sjö fráköst, Anna Soffía Lárusdóttir var með 13 stig og sjö fráköst, Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði 13 stig, Emese Vida var með níu stig og 14 fráköst og Rebekka Rán Karlsdóttir skoraði sjö stig og gaf fimm stoðsendingar.

Ólöf Rún Óladóttir var atkvæðamest í liði gestanna með 26 stig, Natalía Jenný Jónsdóttir skoraði 14 stig og Elísabeth Ýr Ægisdóttir skoraði tíu.

Snæfellskonur hafa sex stig í sjötta sæti deildarinnar, tveimur stigum meira en Breiðablik en eru sex stigum á eftir Haukum í sætinu fyrir ofan. Næsti leikur liðsins er útileikur gegn Haukum miðvikudaginn 11. desember.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mottumars er hafinn

Átaki Krabbameinsfélagsins, Mottumars, var formlega hrundið af stað síðastliðinn föstudag. Átakið snýst um, eins og landsmenn þekkja, krabbamein í körlum.... Lesa meira