Ljósm. úr safni.

Tap eftir góðan fyrri hálfleik

Snæfellingar biðu lægri hlut gegn sterku liði Vestra, 95-77, þegar liðin mættust í 1. deild karla í körfuknattleik á föstudagskvöld. Leikið var vestur á Ísafirði. Snæfellingar höfðu undirtökin framan af fyrri hálfleik, en í þeim síðari tóku heimamenn öll völd á vellinum og tryggðu sér sigurinn.

Snæfellingar voru sterkari í upphafsfjórðungnum. Þeir tóku forystuna snemma leiks og leiddu mest með sjö stigum seint í leikhlutanum en með fjórum stigum að honum loknum, 15-19. Heimamenn komu sér upp að hlið Snæfellinga í byrjun annars leikhluta og eftir það var leikurinn í járnum. Liðin skiptust á að leiða allt til loka fyrri hálfleiks þegar Vestri náði smá rispu og sex stiga forskoti áður en flautað var til hálfleiks, 47-41.

Það var síðan í þriðja leikhluta sem leiðir skildu. Snæfellingar skoruðu aðeins þrjú stig fyrstu sjö mínútur síðari hálfleiks, en á meðan settu heimamenn hvorki fleiri né færri en 23 stig á töfluna. Snæfellingar náðu aðeins að laga stöðuna undir lok þriðja leikhluta, en forysta Vestra fyrir lokafjórðunginn, 77-54. Vestramenn réðu áfram lögum og lofum í fjórða leikhluta og döðruðu við 30 stiga forystu á löngum köflum. Snæfellingar löguðu stöðuna aðeins undir lokin en máttu að endingu sætta sig við 18 stiga tap, 95-77.

Brandon Cataldo var atkvæðamestur í liði Snæfells með 27 stig og 13 fráköst. Anders Gabriel Andersteg skoraði 20 stig, Pavel Kraljic var með tólf stig og ellefu fráköst, Benjamín Ómar Kristjánsson var með sex stig og fimm fráköst, Ísak Örn Baldursson skoraði fjögur og gaf sjö stoðsendingar, Aron Ingi Hinriksson og Kristófer Kort Kristjánsson skoruðu þrjú stig hvor og Eiríkur Már Sævarsson lauk leik með tvö stig.

Reynsluboltinn Nebosja Knazevic dró vagninn í liði Vestra með 27 stig og sex stoðsendingar. Ingimar Aron Baldursson skoraði 19 stig, Hilmir Hallgrímsson var með tólf stig og Matic Macek skoraði tíu stig og gaf sex stoðsendingar.

Snæfellingar verma botnsæti deildarinnar með tvö stig, jafn mörg og Sindri í sætinu fyrir ofan en Hornfirðingar eiga þó leik til góða á Hólmara. Næsti leikur Snæfells er heimaleikur gegn Selfyssingum, sunnudaginn 8. desember næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir