Skallagrímur vann Vesturlandsslaginn

Skallagrímur og Snæfell mættust í Vesturlandsslag í Domino‘s deild kvenna í gærkvöldi. Leikurinn fór fram í Borgarnesi. Borgnesingar mættu til leiks eftir góðan sigur gegn Grindavík en Hólmarar töpuðu síðasta leik á heimavelli gegn Íslandsmeisturum Vals.

Eins og alltaf þegar þessi lið mætast var um hörkuleik að ræða. Snæfellskonur byrjuðu betur og höfðu yfirhöndina í fyrsta leikhluta. Þær leiddu mest með átta stigum, en höfðu fimm stiga forskot þegar upphafsfjórðungurinn var úti. Skallagrímskonur voru sterkari í öðrum leikhluta, komu sér upp að hlið gestanna og leikurinn var í járnum þar til skömmu fyrir hálfleik. Þá náðu Borgnesingar góðri rispu og fóru með átta stiga forystu inn í hléið, 43-35.

Snæfellskonur komu mjög ákveðnar til síðari hálfleiks og gerðu átta stiga forskot Borgnesinga að engu á fyrstu tveimur mínútunum. Þær komust síðan yfir áður en Skallagrímskonur tóku forystuna á nýjan leik. Skallagrímur leiddi út þriðja leikhlutann, en Snæfellskonur voru aldrei langt undan. Aðeins fjórum stigum munaði fyrir lokafjórðunginn og leikurinn var galopinn. Fjórða leikhluta byrjuðu Skallagrímskonur mjög vel, héldu gestunum stigalausum fyrstu fjórar mínúturnar og komust á sama tíma í 16 stigum yfir og staðan orðin 65-49. Næstu fjórar mínútur eftir það skoruðu Skallagrímskonur engin stig, en Snæfell náði ekki að gera sér mat úr því. Leiknum lauk með ellefu stiga sigri Skallagríms, 76-65.

Keira Robinson var atkvæðamest í liði Skallagríms með 35 stig, ellefu fráköst, sjö stoðsendingar og átta stolna bolta. Maja Michalska skoarði 16 stig, Emilie Hesseldal var með tíu stig, níu fráköst, átta stoðsendingar og sjö stolna bolta, Mathilde Colding-Poulsen skoraði tíu stig einnig, Árnína Lena Rúnarsdóttir var með þrjú stig og Gunnhildur Lind Hansdóttir skoraði tvö.

Rebekka Rán Karlsdóttir var stigahæst í liði Snæfells með 20 stig og fimm stoðsendingar að auki. Emese Vida skoraði 13 stig og reif niður 19 fráköst, Anna Soffía Lárusdóttir var með tólf stig, Gunnhildur Gunnarsdóttir skoraði ellefu stig, tók fimm fráköst og gaf fimm stoðsendingar, Veera Pirttinen skoraði sex stig og tók sex fráköst og Helga Hjördís Björgvinsdóttir var með þrjú stig og sex fráköst.

Staða liðanna í deildinni er þannig að Skallagrímur situr í þriðja sæti með 14 stig, jafn mörg og KR og Keflavík í sætunum fyrir ofan og neðan. Snæfellskonur hafa fjögur stig í sjötta sæti, jafn mörg og Breiðablik í sætinu fyrir neðan en eru lentar sex stigum á eftir Haukum.

Bæði lið spila aftur á miðvikudaginn, 4. desember. Skallagrímskonur mæta KR á útivelli en Snæfellskonur fá Grindavík í heimsókn í Hólminn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir