Isaiah Coddon og félagar hans í Skallagrími máttu sætta sig við tap gegn Álftnesingum á fimmtudagskvöld. Ljósm. Skallagrímur.

Gestirnir stjórnuðu ferðinni

Skallagrímur tapaði gegn Álftanesi, 88-102, þegar liðin mættust í 1. deild karla í körfuknattleik. Leikið var í Borgarnesi í gærkvöldi.

Jafnt var á með liðunum framan af fyrsta leikhluta. Álftnesingar skoruðu fyrstu stigin en Skallagrímsmenn leiddu um miðbik fjórðungsins. Þá tóku gestirnir góða rispu og leiddu með sex stigum eftir fyrsta leikhluta, 13-19. Álftnesingar voru öflugri í öðrum fjórðungi, juku forskot sitt og höfðu 15 stiga forskot þegar flautað var til hálfleiks, 35-50.

Gestirnir byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti og komust í 38-65 áður en Skallagrímsliðið tók almennilega við sér um miðjan þriðja leikhluta. Eftir það tóku Borgnesingar til við að laga stöðuna en voru 23 stigum undir fyrir lokafjórðunginn. Þar tókst Skallagrímsmönnum hægt en örugglega að saxa á forskot gestanna. Þeir komust þó aldrei nær en sem nam tíu stigum á lokamínútum leiksins. Álftnesingar áttu lokaorðið og sigruðu með 14 stigum, 88-102.

Isaiah Coddon var stigahæstur í liði Skallagríms með 24 stig og níu fráköst að auki. Davíð Guðmundsson skoraði 18 stig, Kristján Örn Ómarsson var með 13 stig og átta fráköst og Hjalti Ásberg Þorleifsson skoraði ellefu stig og tók fimm fráköst. Arnar Smári Bjarnason skoraði níu stig, Marinó Þór Pálmason var með sex stig, sex fráköst og fimm stoðsendingar, Almar Örn Björnsson skoraði fimm stig og Jón Hrafn Baldvinsson skoraði tvö.

Í liði gestanna var Samuel Prescott atkvæðamestur með 32 stig og níu fráköst. Birgir Björn Pétursson skoraði 20 stig og tók fimm fráköst, Dúi Þór Jónsson skoraði 16 stig, gaf tíu stoðsendingar og tók sjö fráköst og Þorgeir Kristinn Blöndal var með tíu stig og átta fráköst.

Skallagrímur situr í sjöunda sæti deildarinnar með fjögur stig, tveimur stigum meira en Sindri en tveimur stigum á eftir liði Selfyssinga, en bæði liðin eiga leik til góða í kvöld. Borgnesingar leika næst gegn Breiðabliki sunnudaginn 8. desember næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir