Bjarki Þór Grönfeldt hlaut mikið lof fyrir innlegg sitt um hætturnar sem felast í rafrænum einmanaleika. Ljósm. mm.

„Barátta gegn einmanaleika á að vera hluti af lýðheilsustefnu“

Bjarki Þór Grönfeldt fjallaði um hættuna af því að einstaklingar einangrist í rafrænum heimi

 

Á ráðstefnu sem fram fór í tilefni fimmtíu ára afmælis Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi fyrr í þessum mánuði, fluttu nokkrir ungir Vestlendingar ávörp og ræddu framtíðarsýn þeirra fyrir landshlutann. Meðal þeirra var Bjarki Þór Grönfeldt frá Brekku í Norðurárdal. Bjarki stundar nú doktorsnám við háskólann í Kent á Bretlandi. Í síðari hluta innleggs síns fjallaði Bjarki um hættuna sem felst í að einstaklingar einangrist í hinum stafræna heimi.

 

Tilraun sem reynir á þolmörk mannsins

„Það er margt að breytast, tækninni fleygir fram á ógnarhraða og breytingar munu eiga sér stað hér á Vesturlandi sem og annars staðar. Aukinni tækni fylgja ný tækifæri í menntun, samgöngum, samskiptum, atvinnu og svo mætti lengi telja. Trúin á tæknina má þó ekki verða til þess að fólk fjarlægist hvert annað. Við erum nú stödd í risavaxinni tilraun þar sem reynt er á þolmörk mannsins. Þessi tilraun hefur verið kölluð ýmsum nöfnum en það hugtak sem helst er í tísku núna er fjórða iðnbyltingin. Sífellt fleiri þættir mannlegs lífs færast nú úr raunheimum og yfir á skjáinn. Amstur hversdagsins er því að mörgu leyti auðveldara en áður. Enginn þarf lengur að fara í bankann til að reka sín hversdagslegu erindi því appið er orðið betra en vel þjálfaður þjónustufulltrúi. Þú þarft ekki lengur að hringja á heilsugæslustöðina til að panta tíma hjá lækni, þú ferð inn á Heilsuveru.is og pantar tíma þar, Ef þú þarft þá yfir höfuð að fara á heilsugæsluna, því víða um heim getur nú fólk fengið Skype viðtal í staðinn. Meira að segja matarinnkaup, sem áður kröfðust þess að fara út á meðal fólks, fara fram á netinu. Niðurstaðan er hagræði, aukin þægindi, einfaldara líf. En afleiðingin er líka minni þörf á mannlegum samskiptum. Sá galli er á gjöf Njarðar að fólk leitar í minna mæli út á við, í selskap annars fólks, og fer frekar inn á við, í selskap vina á netmiðlum.“

 

Með steinaldarheila á snjalltækjaöld

Bjarki sagði ákveðna þversögn fylgja þessari stóru, svokölluðu fjórðu iðnbyltingu. „Á sama tíma og það hefur aldrei verið jafn auðvelt að eiga í samskiptum við annað fólk er stærri og stærri hluti fólks einangrað og einmana. Við göngum um með fjölbreyttustu samskiptaleiðir frá upphafi í lófum okkar daglega, en eyðum æ meiri tíma ein, fjarri öðrum, svo einmanaleikafaraldur herjar nú á sítengdan heim.“ Sagði Bjarki enga eina skýringu á þessari þróun, en ein kenning sem er vísindalega rökum studd, er sú að heilabú okkar sé vírað til þess að eiga í nánum samskiptum við tiltölulega lítinn hóp fólks. „Það er arfleið fornra tíma, þegar veiðimenn og safnarar flökkuðu um jörðina með samferðafólki úr eigin ættbálki. Þó við sem mannkyn teljum okkur hafa komist langt á braut tækni og þróunar, þá þróumst við sem tegund ekki með tækninni. Mannshugurinn hefur ekki haldið í við framþróun tækninnar og lútum við enn sem áður sömu lögmálum og forfeður okkar og -mæður fyrir þúsundum ára, svo úr verður misræmi þarna á milli. Yfirborðskennd samskipti við risavaxinn hóp, frekar heldur en náin samskipti við lítinn hóp, er eitt af þeim misræmum sem við þurfum að glíma við í dag, með steinaldarheila á snjalltækjaöld.“

Sjá nánar í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir