Strákarnir í 2. flokki ÍA/Kára/Skallagríms náðu besta árangri sem íslenskt lið hefur náð í Unglingadeild Evrópu. Ljósm. úr safni/ gbh.

Strákarnir úr leik í Unglingadeildinni

Sameiginlegt lið ÍA/Kára/Skallagríms í 2. flokki karla er fallið úr leik í Unglingadeild UEFA, eftir 4-1 tap gegn Derby County í Englandi í gær. Fyrri leik liðanna hér heima lauk með 2-1 sigri Englendinganna.

Heimamenn voru mun öflugri í fyrri hálfleik og skoruðu þrjú mörk fyrstu 45 mínútur leiksins. Skagamönnum gekk mun betur í seinni hálfleik, komust betur í takt við leikinn og náðu að skapa sér ágætis marktækifæri. Englendingarnir skoruðu þó fjórða mark sitt áður en Skagamenn fengu vítaspyrnu eftir að brotið var á Eyþóri Aroni Wöhler. Sigurður Hrannar Þorsteinsson fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi. Lokatölur voru 4-1 og Derby sigraði viðureignina því samanlagt 6-2. Þar með eru þeir gulklæddu úr leik í Unglingadeildinni að þessu skipti, en þeir leika þar einnig að ári sem ríkjandi Íslandsmeistarar.

„Árangur strákanna hefur verið framúrskarandi á árinu og að komast í aðra umferð keppninnar var nokkuð sem öðru íslensku liði hafði ekki tekist áður,“ segir á vef KFÍA.

Líkar þetta

Fleiri fréttir