Keira Robinson átti góðan leik þegar Skallagrímskonur sigruðu Grindavík. Ljósm. Skallagrímur.

Skallagrímssigur í Grindavík

Skallagrímskonur unnu góðan sigur á Grindavík, 63-73 þegar liðin mættust í Domino‘s deild kvenna. Leikið var suður með sjó í gærkvöldi.

Borgnesingar voru mun betri í upphafsfjórðungnum, náðu mest ellefu stiga forskoti seint í leikhlutanum og leiddu með sjö stigum að honum loknum, 15-22. Grindavíkurkonur komu til baka í öðrum leikhluta og jöfnuðu metin þegar stutt var til hálfleiks. Liðin fylgdust að næstu andartökin í leiknu en það voru heimakonur sem áttu lokaorðið í fyrri hálfleik og leiddu með fimm stigum í hléinu, 41-36.

Skallagrímskonur náðu undirtökunum á nýjan leik í þriðja leikhluta. Þær náðu forystunni um miðjan leikhlutann og góður lokasprettur skilaði þeim síðan átta stiga forskoti fyrir fjórða leikhluta,48-56. Hann fór rólega af stað hjá Borgnesingum, sem skoruðu ekki fyrstu fjórar mínúturnar. Á meðan skoruðu Grindvíkingar hins vegar aðeins fjögur stig svo Skallagrímskonur héldu forystunni. Þær náðu góðri rispu um miðjan leikhlutann og sigruðu að lokum með tíu stigum, 63-73.

Keira Robinson var atkvæðamest í liði Skallagríms með 29 stig, átta stoðsendingar, fimm fráköst og fimm stolna bolta. Emilie Hesseldal skoraði 13 stig og tók 15 fráköst, Maja Michalska var með ellefu stig, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði tíu stig, gaf ellefu stoðsendingar og tók níu fráköst og Árnína Lena Rúnarsdóttir skoraði tíu stig einnig.

Jordan Reynolds skoraði 22 stig fyrir Grindavík, tók 16 fráköst og gaf sex stoðsendingar. Ingibjörg Jakobsdóttir var með níu stig og Bríet Sif Hinriksdóttir og Ólöf Rún Óladóttir skoruðu átta stig hvor en aðrar höfðu minna.

Skallagrímskonur sitja í þriðja sæti deildarinnar með tólf stig, jafn mörg og Keflavík í sætinu fyrir neðan en tveimur stigum á eftir KR. Næsti leikur liðsins er Vesturlandsslagur gegn Snæfelli á sunnudaginn, 1. desember. Sá leikur fer fram í Borgarnesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir