Helga Hjördís Björgvinsdóttir og félagar hennar í Snæfelli náðu sér ekki á strik gegn firnasterku liði Vals. Ljósm. úr safni.

Réðu ekki við Íslandsmeistarana

Snæfellskonur máttu játa sig sigraðar gegn Íslandsmeisturum Vals á heimavelli, 70-93, þegar liðin mættust í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik í gær.

Valskonur byrjuðu leikinn mun betur, skoruðu tólf stig gegn tveimur fyrstu fimm mínútur leiksins og leiddu með níu stigum eftir fyrsta leikhluta, 13-22. Þær héldu uppteknum hætti í öðrum fjórðungi, juku forskot sitt hægt en örugglega allt þar til hálfleiksflautan gall. Þá var staðan 34-55 fyrir Val og Íslandsmeistararnir komnir í enistaklega vænlega stöðu. Snæfellskonur náðu ekki að koma til baka eftir hléið, þvert á móti héldu Valskonur áfram að bæta við og leiddu 51-79 fyrir lokafjórðunginn. Snæfell náði aðeins að laga stöðuna í fjórða leikhluta en sigur Vals var þó aldrei í hættu. Gestirnir sigruðu að lokum með 23 stigum, 70-93.

Veera Pirttinen var stigahæst í liði Snæfells með 19 stig og sex fráköst. Chandler Smith skoraði 15 stig og tók sex fráköst, Tinna Guðrún Alexandersdóttir var með átta stig og Gunnhildur Gunnarsdóttir sjö stig og sjö stoðsendingar. Anna Soffía Lárusdóttir, Helga Hjördís Björgvinsdóttir og Emese Vida skoruðu sex stig hver, en Emes tók tólf fráköst að auki og Rebekka Rán Karlsdóttir skoraði þrjú stig.

Kiana Johnson var besti maður vals í leiknum, skoraði 28 stig, gaf átta stoðsendingar, stal átta boltum og tók sjö fráköst. Dagbjört Samúelsdóttir skoraði 16 stig og tók sjö fráköst, Hallveig Jónsdóttir skoraði 14 stig og Helena Sverrisdóttir var með ellefu stig og fimm fráköst.

Snæfell situr í sjötta sæti með fjögur stig, jafn mörg og Breiðablik í sætinu fyrir neðan en fjórum stigum á eftir Haukum. Næsti leikur Snæfellskvenna er Vesturlandsslagur gegn Skallagrími í Borgarnesi á sunnudaginn, 1. desember næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir