Ljósm. úr safni/ Skallagrímur.

Stórsigur Skallagrímskvenna

Skallagrímskonur völtuðu yfir Hauka, 55-83, þegar liðin mættust í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik. Leikið var í Hafnarfirði á föstudagskvöld.

Skallagrímskonur voru mjög öflugar í upphafsfjórðungnum, komust í 3-20 og leiddu með 17 stigum eftir fyrsta leikhluta, 5-22. Það var þessi góða byrjun Borgnesinga sem lagði grunn að öruggum sigri liðsins. Í öðrum leikhluta héldu Skallagrímskonur uppteknum hætti, skoruðu 19 stig gegn 13 og leiddu 18-41 í hálfleik.

Skallagrímskonur slógu ekkert af eftir hléið. Þær léku vel í þriðja leikhluta, skoruðu 28 stig gegn 19 stigum Hauka og höfðu 32 stiga forskot fyrir lokafjórðunginn. Haukar náðu aðeins að laga stöðuna í lokafjórðungnum, minnkuðu forystu Skallagríms um fimm stig áður en lokaflautan gall. Leiknum lauk með stórsigri Skallagríms, 55-83.

Emilie Sofie Hesseldal átti stórleik fyrir Skallagrím. Hún skoraði 23 stig, tók 14 fráköst og stal fimm boltum. Keira Robinson setti upp þrennu með 14 stig, ellefu stoðsendingar og tíu fráköst og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir var með 13 stig, tólf fráköst og sex stoðsendingar. Árnína Lena Rúnarsdóttir og Clara Colding-Poulsen skoruðu sjö stig hvor, Gunnhildur Lind Hansdóttir og Maja Michalska skoruðu fjögur stig hvor og Arna Hrönn Ámundadóttir skoraði tvö stig.

Jannetje Guijt skoraði 14 stig fyrir Hauka og Rósa Björk Pétursdóttir var með tólf stig og tíu fráköst en aðrar höfðu minna.

Eftir leiki helgarinnar eru Skallagrímskonur komnar upp í þriðja sæti deildarinnar með tíu stig, jafn mörg og Keflavík í sætinu fyrir neðan en tveimur stigum á eftir KR. Næsti leikur liðsins er útileikur gegn Grindavík á miðvikudaginn, 27. nóvember.

Líkar þetta

Fleiri fréttir