Stórleikur Gunnhildar Gunnarsdóttir nægði Snæfelli ekki til sigurs gegn Breiðabliki. Ljósm. úr safni/ sá.

Snæfell tapaði gegn Blikum

Snæfellskonur töpuðu naumlega gegn Breiðabliki, 73-68, þegar liðin mættust í spennandi leik í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik. Leikið var í Kópavogi á laugardaginn.

Jafnt var á með liðunum í upphafi leiks, en Snæfell náði síðan góðri rispu og sex stiga forystu um miðjan fyrsta leikhluta. Blikar svöruðu fyrir sig og komust yfir, en Snæfellskonur áttu lokaorðið í upphafsleikhlutanum og leiddu með einu stigi að honum loknum, 20-21. Leikurinn var í járnum og liðin skiptust á að leiða þar til seint í fyrri hálfleik. Breiðablik kláraði annan leikhluta af krafti og leiddi með fjórum stigum í hléinu, 33-29.

Heimaliðið hélt síðan forystunni allan þriðja leikhlutann, en Snæfellskonur voru þó aldrei langt undan. Fimm stigum munaði fyrir lokafjórðunginn, 57-52 og leikurinn galopinn. Snæfellskonur komu mjög ákveðnar til fjórða leikhluta og voru ekki lengi að gera forskot Breiðabliks að engu. En Blikar náðu yfirhöndinni á nýjan leik. Góður kafli skilaði þeim átta stiga forystu þegar þrjár mínútur lifðu leiks. Snæfellskonur minnkuðu muninn í þrjú stig en nær komust þær ekki. Leiknum lauk því með fimm stiga sigri Breiðabliks, 73-68.

Gunnhildur Gunnarsdóttir var stigahæst í liði Skallagríms með 30 stig og tók hún fimm fráköst að auki. Veera Pirttinen skoraði 17 stig og tók sjö fráköst, Helga Hjördís Björgvinsdóttir var með átta stig og sjö fráköst, Rebekka Rán Karlsdóttir skoraði sjö stig, Tinna Guðrún Alexandersdóttir var með fjögur stig og Emese Vida skoraði tvö stig og tók tíu fráköst.

Danni Williams var atkvæðamest í liði Breiðabliks með 36 stig og 13 fráköst og Paula Tarnachowicz skoraði tíu stig og tók sjö fráköst.

Snæfell situr í sjötta sæti deildarinnar með fjögur stig, jafn mörg og Breiðablik sem er í sætinu fyrir neðan en fjórum stigum á eftir Haukum í sætinu fyrir ofan. Næsti leikur Snæfells er miðvikudaginn 27. nóvember, þegar liðið mætir Íslandsmeisturum Vals í Stykkishólmi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir