Keppendurnir frá ÍA ásamt Þórði Sævarssyni. Ljósm. KFÍA.

Íslandsmeistaramótinu í grjótglímu lokið

Íslandsmeistaramótaröðinni í grjótglímu lauk um helgina með flottu móti sem haldið var í Klifurhúsinu í Reykjavík. ÍA mætti með sjö sterka klifrara til móts og þeim fylgdi stór hópur áhorfenda og áhangenda. Mótið var fjórða og síðasta mótið í keppninni um Íslandsmeistartitilinn og spennan því í hámarki þegar mótið hófst. Keppendur klifruðu tuttugu leiðir, sem leiðasmiðir Klifurhússins og ÍA höfðu sett upp, og höfðu til þess tvo klukkutíma.

Í C-flokki stúlkna hafnaði Sylvía Þórðardóttir í þriðja sæti en heildarstigafjöldi hennar eftir fjögur mót dugði henni í 1.-2. sæti í mótaröðinni og því þurfti bráðabana til að skera úr um Íslandsmeistaratitilinn. Í bráðabana klifraði Sylvía á móti Ásthildi Elfu úr Hafnarfirði, en þær stöllur hafa verið nokkurn veginn hnífjafnar á mótum ársins. Í bráðabana sigrar sá klifrari sem klifrar lengra í bráðabanaleið á fjórum mínútum og eftir tvær leiðir voru þær stöllur hnífjafnar og spennan því gríðarleg fyrir þriðju leið. Ásthildur byrjaði og klifraði vel og uppskar 8+ stig eftir leiðina, sem innhélt erfiðar jafnvægishreyfingar á litlum tökum og stórt stökk upp í erfitt tak. Sylvía klifraði vel, náði byrjuninni og stökkinu en vantaði herslumuninn til að ná lengra og endaði því með 7 stig og vel verðskulduð silfurverðlaun fyrir ÍA.

Aðrir klifrarar í C- og B flokki náðu ekki á verðlaunapall að þessu sinni en þeir Rúnar Sigurðsson, Sverrir Elí Guðnason og Ellert Kári Samúelsson röðuðu sér í 4.-6. sæti í C-flokki drengja og Tinna Rós Halldórsdóttir í það sjötta í stúlknaflokki.

Í fullorðinsflokki klifraði Brimrún Eir Óðinsdóttir. Hún lauk níu af tuttugu leiðum mótsins og landaði verðskuldað bronsverðlaunum að lokinni Íslandsmeistarmótaröðinni.

Í allt prýðilegasti árangur hjá ÍA. Nú fá klifrarar verðskuldað frí frá keppnum fram yfir áramót.

Líkar þetta

Fleiri fréttir