Ljósm. úr safni/ Skallagrímur.

Aftur á sigurbraut

Skallagrímur er kominn aftur á sigurbraut í 1. deild karla eftir sigur á Sindra, 85-71. Liðin mættust í Borgarnesi í gærkvöldi.

Skallagrímsmenn skoruðu fyrstu sex stig leiksins en gestirnir frá Hornafirði jöfnuðu metin og komust síðan yfir. Borgnesingar áttu lokaorðið í upphafsfjórðungnum og leiddu með þremur stigum að honum loknum, 18-15. Þeir voru síðan sterkari í öðrum leikhluta, náðu snemma að slíta sig frá gestunum og höfðu tíu stiga forskot í hléinu, 42-32.

Sindramenn mættu ákveðnir til síðari hálfleiks, minnkuðu forystu Skallagríms um helming fyrstu þrjár mínúturnar en þá tóku Borgnesingar við sér. Þeir skoruðu 23 stig gegn átta það sem eftir lifði þriðja leikhluta og leiddu með 20 stigum fyrir lokafjórðunginn, 67-47. Þar héldu Skallagrímsmenn uppteknum hætti. Mest leiddu þeir með 27 stigum, um miðjan fjórða leikhluta. Gestirnir náðu aðeins að laga stöðuna það sem eftir lifði leiks, en sigur Skallagríms var aldrei í hættu. Lokatölur voru 85-71, Skallagrími í vil.

Kenneth Simms var stigahæstur í liði Skallagríms með 16 stig og tíu fráköst að auki. Davíð Guðmundsson og Kristján Örn Ómarsson skoruðu 13 stig hvor, Arnar Smári Bjarnason var með tíu stig og sex stoðsendingar, Almar Örn Björnsson skoraði níu stig og tók sjö fráköst, Isaiah Coddon skoraði níu stig einnig, Marinó Þór Pálmason var með átta stig og Hjalti Ásberg Þorleifsson skoraði sjö stig og tók tíu fráköst.

Ignas Dauksys skoraði 18 stig og tók tólf fráköst fyrir Sindra, Stefan Knazevic var með 18 stig sömuleiðis og ellefu fráköst og Árni Birgir Þorvarðarson skoraði tólf stig.

Skallagrímur lyfti sér með sigrinum upp í sjötta sæti deildarinnar. Eftir átta leiki hafa Borgnesingar fjögur stig, jafn mörg og Selfoss í sætinu fyrir neðan en tveimur stigum á eftir Álftnesingum, en bæði liðin eiga þó leik til góða á Skallagrím um helgina.

Næsti leikur Borgnesinga er síðan gegn Álftnesingum í Borgarnesi á fimmtudaginn, 28. nóvember.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Unglingalandsmóti frestað

Framkvæmdarnefnd Unglingalandsmóts UMFÍ í samráði við sóttvarnarlæknir og Almannavarnir hafa ákveðið að fresta mótinu sem fara átti fram á Selfossi... Lesa meira

Ýmiskonar ferðamáti

Nýliðin helgi var líklega einhver stærsta ferðahelgi í langan tíma á Snæfellsnesi enda veðurspáin hagstæð og því mikið af ferðalöngum... Lesa meira