Ljósm. úr safni/ sá.

Mættu ofjörlum sínum

Snæfellskonur mættu ofjörlum sínum þegar þær sóttu Keflavík heim í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik í gærkvöldi. Heimakonur náðu undirtökunum í fyrri hálfleik og unnu að lokum öruggan sigur, 89-66.

Keflvíkingar voru sterkari framan af fyrsta leikhluta en Snæfellskonur voru þó aldrei langt undan. Seint í leikhlutanum náði Keflavík tíu stiga forskoti sem Snæfell minnkaði niður í sex stig áður en upphafsfjórðungurinn var úti, 23-17. Í öðrum leikhluta juku heimakonur forskot sitt jafnt og þétt allt þar til flautað var til hálfleiks. Keflavík leiddi með 15 stigum í hléinu, 52-37.

Jafnræði var með liðunum í þriðja leikhluta og forysta Keflavíkurkvenna breyttist lítið. Þær leiddu með 16 stigum fyrir lokafjórðunginn, 68-52. Heimakonur byrjuðu fjórða leikhlutann betur og komust meira en 20 stigum yfir áður en Snæfell minnkaði muninn í 15 stig þegar fjórar mínútur lifðu leiks. Keflavík átti hins vegar lokaorðið og sigraði að endigu með 23 stigum, 89-66.

Chandler Smith skoraði 15 stig og tók ellefu fráköst í liði Snæfells og Anna Soffía Lárusdóttir var með 15 stig einnig. Veera Annika Pirttinen skoraði ellefu stig og tók tíu fráköst, Gunnhildur Gunnarsdóttir var með níu stig og átta fráköst, Helga Hjördís Björgvinsdóttir níu stig og sjö fráköst, Rebekka Rán Karlsdóttir skoraði fimm stig og Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði tvö.

Daniela Wallen Morillo fór mikinn í liði Keflvíkinga. Hún skoraði 31 stig, tók tólf fráköst, gaf átta stoðsendingar og stal sex boltum. Irena Sól Jónsdóttir var með 13 stig, Katla Rún Garðarsdóttir tólf og þær Anna Ingunn Svansdóttir og Emelía Ósk Gunnarsdóttir skoruðu tíu stig hvor.

Snæfellskonur sitja sem stendur í sjötta sæti deildarinnar með fjögur stig, fjórum stigum á eftir næstu liðum fyrir ofan og tveggja stiga forskot á Breiðablik, sem þær mæta einmitt í næstu umferð. Leikur Snæfells og Breiðabliks fer fram í Kópavogi á laugardaginn, 23. nóvember.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Ýmiskonar ferðamáti

Nýliðin helgi var líklega einhver stærsta ferðahelgi í langan tíma á Snæfellsnesi enda veðurspáin hagstæð og því mikið af ferðalöngum... Lesa meira