Æsispennandi blakleikur í Grundarfirði

Ungmennafélag Grundarfjarðar tók á móti Ými í fyrstu deild kvenna í blaki fimmtudaginn 14. nóvember síðastliðinn. Liðin voru í sitthvorum hluta deildarinnar en Ýmir er við toppinn á meðan Grundarfjörður er í neðri hlutanum. Ljóst var frá byrjun að heimamenn ætluðu að selja sig dýrt og byrjuðu af miklum krafti. Grundfirsku stelpurnar komust í 9-2 áður en gestirnir tóku við sér og náðu að jafna hrinuna 9-9. Liðin skiptust svo á að leiða en UMFG tókst svo að lokum að sigra 25-21 og komast í 1-0 í leiknum. Í annarri hrinu var nokkuð jafnræði með liðunum en gestirnir höfðu þó yfirhöndina í restina og unnu aðra hrinu 25-20 og jöfnuðu þar með leikinn 1-1. Í þriðju hrinu voru Ýmiskonur með yfirhöndina allan tímann og leiddu nokkuð örugglega. Þeirri hrinu lauk með 25-16 sigri gestanna og þær því komnar með forystu 2-1 í leiknum. Í fjórðu hrinu komu Grundfirðingar grimmari til leiks og var hrinan í járnum allt til loka en heimamönnum tókst að jafna metin 2-2 með því að sigra fjórðu hrinuna 25-21 og því þurfti oddahrinu til að fá úrslit. Oddahrinan var í járnum allan tímann þangað til í lokin er gestirnir voru komnir í 14-10 og þurftu því aðeins 1 stig til að sigra leikinn. Heimamenn reyndu hvað þær gátu og náðu að minnka muninn í 14-12 en þá náðu Ýmisstúlkur að skora síðasta stigið og sigruðu því í æsispennandi viðureign 3-2 og skutust því í toppsætið.

Ungmennafélag Grundarfjarðar er í 9. sæti af 12 og leggur land undir fót um næstu helgi og ferð norður til að etja kappi við Völsung á Húsavík 23. nóvember og daginn eftir halda þær á Siglufjörð og sækja lið BF heim. Það verður því nóg um að vera um næstu helgi hjá liðinu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir