Ljósm. úr safni/ sá.

Einstefna í Kópavoginum

Snæfellingar þurftu að lúta í gras gegn Breiðabliki, 116-85, þegar liðin mættust í 1. deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi. Leikið var í Kópavogi.

Blikar voru mun öflugri í upphafsfjórðungnum og náðu snemma leiks afgerandi forystu. Snæfell kom aðeins til baka seint í leikhlutanum en heimamenn áttu lokaorðið og leiddu með 14 stigum þegar leikhlutinn var úti, 30-16. Heimamenn juku forskot sitt hægt en örugglega í öðrum fjórðungi og leiddu með 25 stigum í hléinu, 65-40.

Áfram breikkaði bilið milli liðanna efitr hléið. Blikar héldu áfram að bæta við í þriðja fjórðungi og voru komnir 34 stigum yfir áður en hann var úti, 94-60. Snæfellingar áttu sinn besta leikhluta í þeim fjórða en það hafði lítið að segja. Blikar sigruðu með 116 stigum gegn 85.

Brandon Cataldo var atkvæðamestur í liði Snæfells með 30 stig og ellefu fráköst. Anders Gabriel Andersteg skoraði 18 stig og Ísak Örn Baldursson var með 14 stig. Benjamín Ómar Kristjánsson, Pavel Kraljic og Aron Ingi Hinriksson skoruðu sjö stig hver og Viktor Brimnir Ásmundarson var með tvö stig.

Árni Elmar Hrafnsson skoraði 25 stig, tók fimm fráköst og gaf sex stoðsendingar í liði Breiðabliks. Larry Thomas var með 19 stig, tólf fráköst og sjö stoðsendingar, Sveinbjörn Jóhannesson skoraði 13 stig, Alex Rafn Guðlaugsson skoraði ellefu og Dovydas Strasunskas skoraði tíu stig og tók sex fráköst.

Snæfellingar sitja eftir leikinn í áttunda sæti, með jafn mörg stig og Skallagrímur í sætinu fyrir neðan og Sindri í sætinu fyrir ofan, en hafa leikið einum leik meira en Borgnesingar og tveimur meira en Hornfirðingar. Næsti leikur Snæfells er útileikur gegn Vestra föstudaginn 29. nóvember næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir