Ljósm. úr safni/ Skallagrímur.

Borgnesingar rændir sigrinum

Skallagrímur tapaði naumlega gegn Hetti, 92-89, í æsispennandi leik í 1. deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi. Leikið var austur á Egilsstöðum.

Heimamenn byrjuðu leikinn með látum og leiddu með tíu stigum eftir fjögurra mínútna leik. Þá tóku Skallagrímsmenn við sér, minnkuðu muninn snarlega og voru aðeins þremur stigum á eftir þegar upphafsfjórðungurinn var úti, 27-24. Höttur leiddi með nokkrum stigum framan af öðrum leikhluta, en þegar leið nær hálfleiknum tóku Borgnesingar forystuna. Þeir komust mest sjö stigum yfir seint í leikhlutanum en Höttur lauk fyrri hálfleik með góðri rispu svo aðeins munaði einu stigi í hléinu. Borgnesingar leiddu, 46-47.

Skallagrímsmenn höfðu yfirhöndina í þriðja leikhluta. Þeir komust í sjö stiga forskot þegar komið var fram yfir hann miðjan, en heimamenn náðu að minnka muninn í fjögur stig fyrir lokafjórðunginn. Þar gerði Höttur ítrekað atlögu að forystu Skallagríms, en Borgnesingar stóðu hvert áhlaupið á fætur öðru af sér. Þegar rétt rúm mínúta lifði leiks leiddi Skallagrímur með einu stigi, þegar heimamenn settu niður þriggja stiga skot og tóku forystuna. Þeir skoruðu næstu tvær körfur til viðbótar áður en Borgnesingar náðu að svara og tókst þannig að stela sigrinum á lokamínútunni. Lokatölur voru 92-89, Hetti í vil.

Kristján Örn Ómarsson var stigahæstur í liði Skallagríms með 20 stig og hann tók fimm fráköst að auki. Davíð Guðmundsson skoraði 14 stig, Kenneth Simms skoraði 13 stig og tók ellefu fráköst, Marinó Þór Pálmason skoraði 13 stig, tók sjö fráköst og gaf fimm stoðsendingar, Isaiah Coddon skoraði ellefu stig, Kristófer Gíslason var með tíu stig og fimm fráköst, Arnar Smári Bjarnason og Ásbjörn Baldvinsson skoruðu þrjú stig hvor og Hjalti Ásberg Þorleifsson skoraði tvö.

Eysteinn Bjarni Ævarsson skoraði 20 stig og tók sjö fráköst fyrir Hött og Matej Karlovic skoraði 20 stig einnig. David Guardia Ramos skoraði 19 stig og tók átta fráköst, Dino Stipcic skoraði 13 stig, tók sex fráköst og gaf átta stoðsendingar og Marcus Jermaine Van skoraði tólf stig og tók 16 fráköst.

Borgnesingar verma botnsæti deildarinnar með tvö stig, jafn mörg og Snæfell og Sindri í sætunum fyrir ofan en eiga leik til góða á Snæfellinga. Næsti leikur Skallagríms er gegn Sindra í Borgarnesi fimmtudaginn 21. nóvember.

Líkar þetta

Fleiri fréttir