Ljósm. úr safni/ sá.

Tap gegn Álftnesingum

Snæfell beið lægri hlut gegn Álftanesi, 70-77, þegar liðin mættust í 1. deild karla í körfuknattleik á föstudagskvöld. Leikurinn fór fram í Stykkishólmi.

Fyrsti leikhluti var kaflaskiptur. Gestirnir skoruðu fyrstu sex stig leiksins áður en Snæfellingar komust í 7-6. Þá tóku Álftnesingar við sér, komust aftur sex stigum yfir en Snæfell minnkaði muninn í eitt stig áður en leikhlutinn var úti, 17-16. Álftnesingar höfðu yfirhöndina í öðrum fjórðungi. Þeir náðu snemma að slíta sig aðeins frá Snæfellingum og leiddu með níu stigum í hléinu, 31-40.

Snæfellingar komu ákveðnir til síðari hálfleiks. Þeir komu sér ítrekað nálægt gestunum en tókst þó aldrei að taka forskotið. Þriðja leikhluta lauk með smá rispu Álftnesinga, sem leiddu með átta stigum fyrir lokafjórðunginn, 51-59. Snæfellingar hleyptu spennu í leikinn síðustu mínúturnar, minnkuðu muninn í fjögur stig en komust ekki nær. Álftanes sigraði með 77 stigum gegn 70.

Anders Gabriel Andersteg var stigahæstur Snæfellinga með 20 stig og Brandon Clarke skoraði 16 stig og reif niður 21 frákast. Ísak Örn Baldursson var með níu stig, Aron Ingi Hinriksson átta stig, Benjamín Ómar Kristjánsson og Guðni Sumarliðason skoruðu sex stig hvor, Dawid Einar Karlsson skoraði þrjú og Viktor Birnir Ásmundarson lauk leik með tvö stig.

Samuel Prescott jr. var atkvæðamestur gestanna með 29 stig og fimm fráköst, Brynjar Magnús Friðriksson skoraði 16 stig og tók sex fráköst og Dúi Þór Jónsson var með 13 stig og fimm fráköst.

Snæfellingar verma botnsæti deildarinnar eftir sjö leiki með tvö stig. Næst leikur Snæfell í kvöld, mánudaginn 18. nóvember, þegar liðið mætir Breiðabliki á útivelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir