Kenneth Simms setti upp þrennu þegar Skallagrímur tapaði gegn Hamri. Ljósm. Skallagrímur.

Misstu af lestinni eftir hléið

Skallagrímur tók á móti Hamri í 1. deild karla í körfuknattleik á miðvikudagskvöld. Eftir jafnan fyrri hálfleik náðu gestirnir úr Hveragerði yfirhöndinni í þeim síðari og sigruðu að lokum með 15 stigum, 89-104.

Liðin skiptust á að leiða framan af fyrsta leikhluta. Undir lok hans náðu Hamarsmenn smá rispu og leiddu með fjórum stigum að honum loknum. Annar leikhluti var mjög jafn. Gestirnir leiddu framan af en Skallagrímsmenn fylgdu þeim hvert fótmál. Borgnesingar jöfnuðu metin rétt fyrir lok fyrri hálfleiks en Hvergerðingar áttu lokaorðið í öðrum leikhluta og leiddu með einu stigi í hléinu, 49-50.

Liðin fylgdust að fyrstu mínútur síðari hálfleiks en þá náðu gestirnir að slíta sig frá Skallagrími með góðri rispu. Þeir leiddu með 14 stigum fyrir lokafjórðunginn og stóðu með pálmann í höndunum. Skallagrímsmenn minnkuðu muninn í átta stig snemma í fjórða leikhluta en nær komust þeir ekki. Hamar jók forskot sitt að nýju og sigraði að lokum með 104 stigum gegn 89 stigum Skallagríms.

Kenneth Simms setti upp þrennu í liði Skallagríms, skoraði 13 stig, tók 13 fráköst og gaf tólf stoðsendingar. Hjalti Ásberg Þorleifsson var hins vegar stigahæstur með 18 stig. Kristján Örn Ómarsson skoraði 13 stig og tók fimm fráköst, Kristófer Gíslason var með tólf stig og níu fráköst og Marinó Þór Pálmason skoraði tólf stig einnig. Arnar Smári Bjarnason skoraði níu stig, Davíð Guðmundsson átta og Jón Hrafn Baldvinsson skoraði fjögur stig.

Everage Lee Richardsson átti sannkallaðan stórleik fyrir Hamar, skoraði 39 stig, tók níu fráköst og stal fimm boltum. Toni Jelenkovic var með 20 stig og sjö stoðsendingar, Pálmi Geir Jónsson 14 stig og níu stoðsendingar, Ragnar Jósef Ragnarsson skoraði 13 stig og gaf fimm stoðsendingar og Björn Ásgeir Ásgeirsson skoraði 13 stig einnig.

Skallagrímur situr eftir leikinn í áttunda sæti deildarinnar með 2 stig eftir sex leiki, á milli Snæfells og Selfoss á stöðutöflunni sem hafa jafn mörg stig en Selfyssingar eiga þó leik til góða. Næsti leikur Skallagríms er útileikur gegn Hetti á mánudaginn, 18. nóvember.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land-... Lesa meira