Ljósm. úr safni/ Einherjar.

Amerískur fótbolti á Akranesi á laugardaginn

Leikinn verður amerískur fótbolti í Akraneshöll á laugardag, þegar Einherjar mæta þýska liðinu Pforzheim Wilddogs. Er þetta í annað skipti sem amerískur fótboltaleikur fer fram á Akranesi, en Einherjar sigruðu sænska liðið Tyreso Royal Crowns í Akraneshöllinni í nóvember í fyrra.

Amerískur fótbolti nýtur nokkuð vaxandi vinsælda um heim allan og stöðugt fleiri utan Bandaríkjanna fylgjast með gangi mála í NFL deildinni bandarísku. Haldið er úti deildarkeppnum í íþróttinni í fjölmörgum löndum Evrópu, auk Evrópudeildar.

Einherjar eru eina starfandi lið landsins sem leikur íþróttina, en liðið var stofnað árið 2008. Þeir hafa staðið fyrir allnokkrum leikjum hér á landi þar sem þeir hafa mætt erlendum liðum. Til að mynda verður leikur Einhverja gegn Pforzheim Wilddogs sjöundi leikur þeirra gegn þýskum liðum og eru Einherjar taplausir í þeim viðureignum.

Leikur Einherja og Profzheim Wilddogs í Akraneshöllinni hefst kl. 16:00 næstkomandi laugardag, 16. nóvember, sem fyrr segir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir