Ljósm. úr safni/ sá.

Verma botnsætið

Snæfellingar biðu lægri hlut gegn Sindra, 88-73, þegar liðin mættust í 1. deildkarla í körfuknattleik á föstudagskvöld. Leikið var á Höfn í Hornafirði.

Jafnræði var með liðunum framan af fyrsta leikhluta og þau skiptust á að leiða. Snæfellingar udnirtökunum yfirhöndinni seint í upphafsfjórðungnum og leiddu með 21 stigi gegn 16 að honum loknum. Heimamenn minnkuðu muninn snemma í öðrum leikhluta og leikurinn var í járnum næstu mínúturnar. Um miðjan leikhlutann náði Sindri smá rispu og nokkurra stiga forystu. Þeir voru sterkari það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og leiddu með tólf stigum í hléinu, 52-40.

Það var síðan í þriðja leikhluta sem leiðir skildu. Sindramenn byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti og voru snemma komnir 21 stigi yfir. Því forskoti héldu þeir um það bil óbreyttu allan leikhlutann og leiddu með 20 stigum fyrir lokafjórðunginn, 74-54. Snæfellingar náðu aðeins að klóra í bakkann á lokamínútum leiksins. Þeir minnkuðu muninn í ellefu stig þegar þrjár mínútur voru eftir á klukkunni en heimamenn svöruðu og sigruðu að endingu með 15 stigum, 88-73.

Ingimar Þrastarson var atkvæðamestur í liði Snæfells með 21 stig og átta fráköst. Pavel Kraljic skoraði 18 stig og tók sex fráköst, Brandon Cataldo var með ellefu stig, Aron Ingi Hinriksson skoraði tíu og Ísak Örn Baldursson var með sex. Benjamín Ómar Kristjánsson, Eiríkur Már Sævarsson og Guðni Sumarliðason skoruðu tvö stig hver og Viktor Brimnir Ásmundarson lauk leik með eitt stig.

Í liði heimamanna var Arnar Geir Líndal stigahæstur með 19 stig og tók hann sex fráköst að auki. Árni Birgir Þorvarðarson skoraði 17 stig og tók fimm fráköst, Ignas Dauksys skoraði 15 stig og Stefan Knazevic skoraði ellefu stig og tók sjö fráköst.

Úrslit leiksins gera það að verkum að Snæfell situr á botni deildarinnar með tvö stig eftir sex leiki, jafn mörg og næstu þrjú lið fyrir ofan sem öll eiga leik til góða á Hólmara. Næst leika Snæfellingar á föstudaginn, 15. nóvember, þegar þeir mæta Álftnesingum í Stykkishólmi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir