Ljósm. úr safni/ gbh.

Naumt tap gegn Derby

Sameiginlegt lið ÍA/Kára/Skallagríms tapaði naumlega gegn Englandsmeisturum Derby County í hörkuleik í Unglingadeld UEFA. Leikið var á Víkingsvelli í Reykjavík í gærkvöldi.

Bretarnir voru sterkari í upphafileiks og komust yfir á 16. mínútu. Louie Sibley fékk langa sendingu fram vinstri kantinn, fór upp að endalínu og sendi laglega sendingu út í vítateiginn á Festy Ebosele sem lagði boltann snyrtilega í vinstra hornið niðri.

Bretarnir bættu öðru marki við á 39. mínútu. Sibley fékk þá boltann nálægt miðjuboganum, keyrði í átt að vítateignum og vippaði boltanum inn fyrir vörnina á Jack Stretton sem lyfti honum yfir Aron Bjarka Kristjánsson markvörð og í netið. Staðan var því 0-2 fyrir Derby í hálfleik.

Þeir gulklæddu áttu mun betri leik í síðari hálfleiknum en í þeim fyrri. Þeir sköpuðu sér nokkur álitleg marktækifæri eftir því sem leið á leikinn og náðu að minnka muninn á 72. mínútu. Þeir unnu boltann á miðjum vallarhelmingi Derby, léku honum út til hægri á Gísla Laxdal sem sendi glæsilega sendingu fyrir markið meðfram jörðinni. Boltinn fór alla leið á fjærstöngina þar sem Aron Snær Ingason henti sér á boltann og kom honum í netið.

Fleiri mörk voru ekki skoruð og lokatölur því 1-2, Derby í vil. Síðari viðureign liðanna fer fram á Pride Park í Derby miðvikudaginn 27. nóvember næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land-... Lesa meira