Keira Robinson átti stórleik þegar Skallagrímur sigraði Breiðablik. Ljósm. Skallagrímur.

Karaktersigur Skallagríms

Skallagrímskonur unnu góðan sigur á Breiðabliki, 60-48, þegar liðin mættust í sjöttu umferð Domino‘s deildar kvenna í körfuknattleik. Leikið var í Borgarnesi í gærkvöldi.

Blikar byrjuðu leikinn betur en Skallagrímskonur sóttu í sig veðrið eftir því sem leið á upphafsfjórðunginn og leiddu með þremur stigum að honum loknum, 19-16. En annar fjórðungur Skallagrímskvenna var afleitur, þar sem þær skoruðu aðeins fimm stig. Á meðan náðu gestirnir tíu stiga forskoti og leiddu 24-34 þegar hálfleiksflautan gall.

Allt annað var uppi á teningnum hjá Skallagrímskonum í þriðja leikhluta. Hægt en örugglega náðu þær að minnka forskot gestanna í eitt stig, en Blikar skoruðu aðeins sex stig allan leikhlutann. Staðan var 39-40 fyrir lokafjórðunginn og leikurinn í járnum. Þar voru Skallagrímskonur sterkari. Þær náðu forystunni snemma í leikhlutanum og sigldu síðan lengra fram úr á lokasprettinum. Blikar skoruðu aðeins átta stig í lokafjórðungnum og Skallagrímskonur unnu að lokum með tólf stigum, 60-48.

Keira Robinson átti stórleik fyrir Skallagrím, skoraði 33 stig, tók níu fráköst og stal boltanum sex sinnum. Emilie Hesseldal skoraði tólf stig, reif niður 17 fráköst og stal fjórum boltum. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði fimm stig, Árnína Lena Rúnarsdóttir skoraði fjögur stig og tók fimm fráköst, Maja Michalska skoraði tvö stig og tók átta fráköst og þær Gunnhildur Lind Hansdóttir og Clara Coldin-Poulsen skoruðu tvö stig hvor.

Violet Morrow skoraði 17 stig og tók tólf fráköst í liði Breiðabliks og Þórdís Jóna Kristjánsdóttir skoraði níu stig en aðrar höfðu minna.

Skallagrímskonur sitja í fjórða sæti deildarinnar með átta stig, jafn mörg og Haukar í sætinu fyrir ofan. Næsti leikur liðsins er gegn Íslandsmeisturum Vals á laugardaginn, 9. nóvember. Sá leikur fer einnig fram í Borgarnesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir