Anna Soffía Lárusdóttir gerir hér atlögu að körfu KR-inga. Ljósm. sá.

Gestirnir sterkari í síðari hálfleik

Snæfellskonur máttu játa sig sigraðar gegn KR, 57-81, þegar liðin mættust í Domino‘s deild kvenna í Stykkishólmi í gær. Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn en í þeim síðari tóku gestirnir öll völd á vellinum og unnu að lokum sannfærandi sigur.

KR skoraði fyrstu stig leiksins og leiddi framan af fyrsta leikhluta, en Snæfellskonur voru þó aldrei nema örfáum stigum á eftir. Þær jöfnuðu síðan metin í 15-15 seint í leikhlutanum en KR-ingar áttu lokaorðið og leiddu með 20 stigum gegn 15 eftir upphafsfjórðunginn. Snæfell kom sér að nýju upp að hlið KR strax í upphafi annars leikhluta og þegar hann var hálfnaður var staðan jöfn, 25-25. En gestirnir náðu góðum endaspretti í fyrri hálfleik sem skilaði þeim tólf stiga forystu í hléinu, 30-42.

Í þriðja leikhluta tóku KR-konur öll völd á vellinum, héldu Snæfelli í skefjum og höfðu 19 stiga forskot fyrir lokafjórðunginn. Þar með lögðu þær grunn að sigrinum, því Snæfell náði ekki að ógna forystu gestanna í fjórða leikhluta. Að lokum fór svo að KR sigraði með 81 stigi gegn 57 stigum Snæfells.

Gunnhlidur Gunnarsdóttir var atkvæðamest í liði Snæfells með 16 stig, tólf fráköst og þrjú varin skot. Emese Vida kom henni næst með 14 stig og 17 fráköst, Anna Soffía Lárusdóttir og Veera Pirttinen skoruðu sjö stig hvor, Chandler Smith var með fimm stig, Rebekka Rán Karlsdóttir fjögur, Helga Hjördís Björgvinsdóttir þrjú og Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði eitt stig.

Sanja Orazovic var stigahæst KR-kvenna með 24 stig og átta fráköst að auki. Danielle Rodriguez skoraði 15 stig, gaf sex stoðsendingar og tók fimm fráköst og Sóllilja Bjarnadóttir var með ellefu stig.

Eftir leikinn er Snæfell í sjötta sæti deildarinnar með fjögur stig, jafn mörg og Keflavík í sætinu fyrir ofan en hefur leikið einum leik fleira. Næsti leikur Snæfells er einmitt viðureign þessara tveggja liða. Þau mætast í Keflavík miðvikudaginn 20. nóvember.

Líkar þetta

Fleiri fréttir