Marinó Þór Pálmason í leik Skallagríms og Sindra í Borgarnesi. Ljósm. Skallagrímur/ Gunnhildur Lind.

Úr leik í bikarnum

Skallagrímur og Snæfell töpuðu bæði

Leikið var í 32 liða úrslitum Geysisbikars karla í körfuknattleik um helgina. Snæfell og Skallagrímur léku í gærkvöldi og máttu bæði lið sætta sig við tap í sínum viðureignum. Borgnesingar töpuðu fyrir Sindra í Borgarnesi og Snæfell beið lægri hlut gegn Þór Ak. í Stykkishólmi.

Spennuleikur í Borgarnesi

Skallagrímsmenn höfðu yfirhöndina gegn Sindra í fyrri hálfleik, komust mest 14 stigum yfir áður en gestirnir minnkuðu muninn í sex stig fyrir hléið, 37-31. Sindri minnkaði muninn í eitt stig snemma í þriðja leikhluta áður en Borgnesingar tóku góða rispu og leiddu með sjö stigum fyrir lokafjórðunginn. Gestirnir komu sér upp að hlið heimamanna á fyrstu mínútum fjórða leikhluta og við tóku æsispennandi lokamínútur. Þar hittu gestirnir einfaldlega betur úr skotum sínum en Borgnesingar og því fór sem fór. Sindri vann með 80 stigum gegn 71 og Skallagrímur hefur því lokið keppni í Geysisbikarnum að þessu sinni.

Kenneth Simms var atkvæðamestur í liði Skallagríms með 16 stig, 16 fráköst og átta stoðsendingar, Kristján Örn Ómarsson skoraði 14 stig og tók tíu fráköst og Hjalti Ásberg Þorleifsson skoraði 13 stig.

Árni Birgir Þorvarðarson var stigahæstur í liði Hornfirðinga með 15 stig og sex fráköst að auki. Andrée Fares Michelsson skoraði 13 stig, Ignas Dauksys var með 12 stig og sex fráköst, Arnar Geir Líndal skoraði ellefu stig og tók sjö fráköst og Stefan Kriezevic skoraði tíu stig, tók ellefu fráköst og gaf sjö stoðsendingar.

Einstefna í Stykkishólmi

Snæfellingar mættu ofjörlum sínum þegar Þór Ak. heimsótti þá í Hólminn. Jafnræði var með liðunum framan af fyrsta leikhluta og um hann miðjan leiddu gestirnir með tveimur stigum. Þá náðu Akureyringar smá rispu og höfðu sjö stiga forskot eftir upphafsfjórðunginn, 20-27. Eftir það skildu leiðir. Þórsarar settu í fluggírinn og náðu 30 stiga forskoti eftir miðjan annan leikhluta. Snæfellingar komu aðeins til baka en 25 stigum munaði í hléinu, 33-58 og Þórsarar í einkar vænlegri stöðu. Þeir bættu lítið eitt við forystu sína í þriðja leikhluta en Snæfellingar komu aðeins til baka í lokafjórðungnum. Þegar lokaflautan gall munaði 22 stigum á liðunum. Þór sigraði með 92 stigum gegn 70 og Snæfell hefur lokið þátttöku í bikarkeppninni þetta árið.

Guðni Sumarliðason var stigahæstur í liði Snæfells með 15 stig, Brandon Cataldo skoraði 13 stig og tók fimm fráköst og Anders Gabriel Andersteg skoraði tíu stig.

Í liði gestanna var Jamal Palmer atkvæðamestur með 16 stig og níu fráköst, Erlendur Ágúst Stefánsson skoraði 15 stig, Pablo Hernandez Montenegro var með tólf stig, Baldur Örn Jóhannesson ellefu og Júlús Orri Ágústsson skoraði tíu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir