Ljósm. úr safni/ sá.

Töpuðu heima

Snæfellskonur máttu játa sig sigraðar þegar þær mættu Haukum í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik. Leikið var í Stykkishólmi í gærkvöldi og lauk leiknum með sigri Hauka, 56-61.

Snæfell byrjaði leikinn betur og komst í 12-7 áður en Haukar jöfnuðu metin í 12-12 seint í fyrsta leikhluta. Snæfellskonur áttu lokaorðið í upphafsfjórðungnum og leiddu með þremur stigum að honum loknum, 18-15. Hólmarar leiddu framan af öðrum fjórðungi, en um hann miðjan sneru gestirnir taflinu sér í vil. Haukakonur jöfnuðu í 22-22 og góður leikkafli undir lok fyrri hálfleiks skilaði þeim sjö stiga forskoti í hléinu, 26-33.

Haukakonur héldu um það bil sama forskoti framan af þriðja leikhluta. Seint í leikhlutanum náðu þær síðan góðri rispu og 18 stiga forskoti. Snæfell svaraði fyrir sig og minnkaði muninn í ellefu stig fyrir lokafjórðunginn, 40-51. Þar sýndu Snæfellskonur mikla baráttu og færðust stöðugt nær Haukaliðinu eftir því sem leið nær leikslokum. En þær komust aldrei nær en sem nam fimm stigum og máttu að lokum sætta sig við tap, 56-61.

Emese Vida var stigahæst í liði Snæfels með 15 stig en auk þess reif hún niður 22 fráköst og stal fjórum boltum. Rebekka Rán Karlsdóttir skoraði tólf stig og Chandler Smith var með ellefu stig og 13 fráköst. Gunnhildur Gunnarsdóttir skoraði níu stig, Rósa Kristín Indriðadóttir skoraði fimm stig og tók fimm fráköst og Veera Pirttinen lauk leik með fjögur stig.

Í liði Hauka var Sigrún Björg Ólafsdóttir stigahæst með 14 stig, Lovísa Björt Henningsdóttir skoraði 13 stig og tók níu fráköst, Jannetje Guijt var með tólf stig og fimm fráköst og Þóra Kristín Jónsdóttir skoraði ellefu stig og tók sex fráköst.

Snæfell hefur fjögur stig í sjötta sæti deildarinnar eftir fyrstu fimm umferðir vetrarins. Næsti leikur liðsins er gegn KR, þriðjudaginn 5. nóvember næstkomandi. Sá leikur fer einnig fram í Stykkishólmi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir