Ljósm. úr safni/ Skallagrímur.

Sigur eftir spennandi lokamínútur

Skallagrímskonur gerðu góða ferð til Keflavíkur í gærkvöldi, þegar þær sigruðu lið Keflvíkinga, 70-75, í Domino‘s deild kvenna í körfunkattleik. Skallagrímskonur höfðu yfirhöndina lungann úr leiknum, en Keflvíkingar voru nálægt því að vinna upp afgerandi forskot í lokafjóðrungnum. Leikurinn var því æsispennandi undir lokin, en fór svo að lokum að Borgnesingar höfðu betur.

Jafnt var á með liðunum í upphafi leiks. Skallagrímskonur náðu yfirhöndinni seint í fyrsta leikhluta og með 9-0 kafli síðustu mínúturnar skilaði þeim ellefu stiga forystu eftir upphafsfjórðunginn, 10-21. Keflvíkingar virtust aðeins vera að vakna til lífsins í öðrum leikhluta, en Skallagrímskonur létu það ekki á sig fá og héldu í kringum tíu stiga forskoti nær allan leikhlutann. Allt þar til undir lok fyrri hálfleiks, að þær tóku smá rispu og fóru 15 stigum yfir inn í hálfleikinn.

Skallagrímskonur komu mjög ákveðnar til síðari hálfleiks, bættu við forskot sitt og leiddu mest með 24 stigum um miðjan þriðja leikhluta, í stöðunni 34-59. Þá svöruðu Keflvíkingar aðeins fyrir sig og náðu að laga stöðuna í 46-63 fyrir lokafjórðunginn. Þar voru heimakonur sterkari og litlu mátti muna að þær næðu að vinna upp 17 stiga forskot Borgnesinga. Keflvíkingar spiluðu þétta vörn og héldu Skallagrímskonum stigalausum fyrstu þrjár mínúturn leikhlutans. Hægt en örugglega komu þær sér nánast alveg upp að hlið Skallagríms og áðu að minnka muninn í tvö stig þegar ein og hálf mínúta lifðu leiks. En Skallagrímskonum stóðu sína plikt það sem eftir lifði og sigruðu að lokum með fimm stigum, 70-75.

Keira Robinson var atkvæðamest í liði Skallagríms með 29 stig, níu fráköst, fimm stoðsendingar og þrjá stolna bolta. Emilie Hesseldal skoraði 19 stig, tók tólf fráköst og gaf fimm stoðsendingar og Sigrúm Sjöfn Ámundadóttir var með ellefu stig og tíu fráköst. Árnína Lena Rúnarsdóttir skoraði átta stig, Maja Michalska var með sex og Gunnhildur Lind Hansdóttir skoraði tvö stig.

Daniela Morillo var atkvæðamest í liði Keflavíkur með 25 stig og tíu fráköst, Anna Ingun Svansdóttir skoraði 15 stig og Emilía Ósk Gunnarsdóttir var með tólf.

Skallagrímskonur lyftu sér með sigrinum upp í fjórða sæti deildarinnar. Þær hafa sex stig eftir fimm leiki, stigi meira en Keflavík en tveimur stigum á eftir næstu liðum fyrir ofan. Næsti leikur liðsins er gegn Breiðabliki í Borgarnesi miðvikudaginn 6. nóvember.

Líkar þetta

Fleiri fréttir