Ljósm. úr safni/ sá.

Tap fyrir austan

Snæfellingar máttu játa sig sigraða gegn Hetti, 95-73, þegar liðin mættust í 1. deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi. Leikið var austur á Egilsstöðum.

Snæfell byrjaði leikinn betur og leiddi fyrstu mínúturnar. Þeir skoruðu fyrstu sjö stigin en eftir það tóku heimamenn við sér og voru komnir yfir þegar upphafsfjórðungurinn var hálfnaður. Þeir áttu síðan góðan kafla það sem eftir lifði leikhlutans og höfðu afgerandi forystu að honum loknum, 29-15. Heimamenn juku síðan forskot sitt hægt en örugglega þar til flautað var til hálfleiks. Þeir leiddu með 57 stigum gegn 33 í hléinu og voru með unninn leik í höndunum.

Hattarmenn voru áfram sterkari í síðari hálfleik. Þeir juku forskotið í þriðja leikhluta og voru 35 stigum yfir fyrir lokafjórðunginn, 81-46. Í fjórða leikhluta komu Snæfellingar aðeins til baka, skoruðu 27 stig gegn 14 og náðu þannig að laga stöðuna aðeins. Sigur heimamanna var þó aldrei í hættu. Lokatölur á Egilsstöðum voru 95-73, Hetti í vil.

Brandon Cataldo var atkvæðamestur Snæfellinga með 23 stig og tólf fráköst. Anders Gabriel Andersteg skoraði 13 stig, Ísak Örn baldursson var með tólf stig, Aron Ingi Hinriksson níu, Benjamín Ómar Kristjánsson sjö og þeir Pavel Kraljic, Dawid Einar Karlsson og Eiríkur Már Sævarsson skorðu þrjú stig hver.

Eysteinn Bjarni Ævarsson fór fyrir liði Hattar með 20 stig, níu fráköst og hvorki fleiri né færri en sjö stolna blta. David Ramos skoraði 19 stig og tók sjö fráköst, Dino Stipcic var með 15 stig og tíu fráköst, Marcus Jarmaine Van skoraði tólf stig og tók tíu fráköst og Matej Karlovic skoraði tólf stig einnig.

Snæfellingar hafa tvö stig eftir fimm umferðir og sitja í áttunda sæti deildarinnar. Næsti deildarleikur liðsins fer fram föstudaginn 8. nóvember næstkomandi, þegar liðið mætir botnliði Sindra austur á Höfn í Hornafirði.

Líkar þetta

Fleiri fréttir