Hjalti Ásberg Þorleifsson var stigahæstur í liði Skallagríms þegar liðið sótti fyrsta sigur vetrarins á Selfoss. Ljósm. Skallagrímur.

Sóttu fyrstu stig vetrarins

Skallagrímur krækti í fyrstu stig vetrarins í 1. deild karla í körfuknattleik þegar liðið lagði Selfoss á útivelli. Leikið var á Selfossi í gærkvöldi. Borgnesingar höfðu undirtökin allan leikinn og unnu að lokum þriggja stiga sigur, 86-89.

Skallagrímur byrjaði leikinn af miklum krafti og komst í 2-15 eftir miðjan upphafsfjórðunginn. Þá tóku gestirnir rispu svo ekki munaði nema fjórum stigum þegar leikhlutinn var úti, 15-19. Selfyssingar minnkuðu muninn í eitt stig snemma í öðrum fjórðungi áður en komust ekki nær. Skallagrímsmenn tóku völdin á vellinum að nýju og fóru með ellefu stiga forskot inn í hálfleikinn, 37-48.

Borgnesingar héldu í kringum tíu stiga forystu allan þriðja leikhlutann, þar til í lokin að heimamenn minnkuðu muninn í sjö stig, 66-73. Snemma í lokafjórðungnum komu Selfyssingar sér tveimur stigum frá Skallagrími og hleyptu mikilli spennu í leikinn. Skallagrímsmenn létu forystuna aldrei af hendi á lokamínútunum þó gestirnir þjörmuðu að þeim. Fór svo að lokum að Borgnesingar sigruðu með 89 stigum gegn 86.

Hjalti Ásberg Þorleifsson var stigahæstur Skallagrímsmanna með 21 stig og sex fráköst að auki. Kristján Örn Ómarsson skoraði 16 stig, Kristófer Gíslason skoraði 15 stig og tók átta fráköst, Kenneth Simms var með ellefu stig, 14 fráköst og sex stoðsendingar, Davíð Guðmundsson tíu stig og Marinó Þór Pálmason átta stig. Almar Örn Björnsson og Arnar Smári Bjarnason skoruðu þrjú stig hvor og Isiaiah Coddon tvö stig.

Kristijan Vlodovic var atkvæðamestur í liði Selfyssinga með 24 stig, sex fráköst, sex stoðsendingar og fimm stolna bolta og Ragnar Magni Sigurjónsson kom honum næstur með 17 stig.

Skallagrímur situr eftir leikinn í sjöunda sæti deildarinnar með tvö stig eftir fimm umferðir. Næst leika Borgnesingar í deildinni miðvikudaginn 13. nóvember, þegar þeir mæta Hamri í Borgarnesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir