Ljósm. úr safni/ sá.

Sekúndum frá sigrinum

 

Snæfellingar máttu játa sig sigraða gegn Hamri, 103-100, í æsispennandi viðureign liðanna í 1. deild karla í körfuknattleik. Leikið var í Hveragerði síðastliðið föstudagskvöld.

Snæfellingar voru öflugri í uphafi leiks, komust í 7-13 en gestirnir minnkuð muninn í eitt stig seint í fyrsta leikhlutanum. Snæfell átti lokaorðið í upphafsfjórðungnum og leiddi með þremur stigum að honum loknum, 22-25. Hólmarar réðu áfram ferðinni framan af öðrum fjórðungi, komust sjö stigum yfir snemma í leikhlutanum og héldu þeirri stöðu um það bil óbreyttri þar til leikhlutinn var hálfnaður. Þá náðu Hamarsmenn góðum leikkafla, tóku forystuna og leiddu með sex stigum þegar flautað var til hálfleiks, 53-47.

Hamarsmenn höfðu yfirhöndina í upphafi síðari hálfleiks en Snæfellingar voru ekki lengi að koma sér upp að hlið þeirra að nýju. Þegar þriðji leikhluti var hálfnaður höfðu þeir minnkað muninn í eitt stig. Hamarsmenn náðu þá smá rispu og leiddu með fjórum stigum fyrir lokafjórðunginn, 74-71. Hvergerðingar byrjuðu lokafjórðunginn vel og náðu tíu stiga forskoti. En Snæfellingar voru hvergi af baki dottnir. Með góðum leik minnkuðu þeir muninn í eitt stig þegar fjórði leikhluti var hálfnaður, 87-86 og leikurinn var í járnum allt til loka. Úrslitin réðust ekki fyrr en á lokaandartökunum. Þegar fimm sekúndur lifðu leiks, í stöðunni 100-100. Þá fengu náði Everage Lee skoti af stuttu færi og fékk vítaskot að auki sem hann setti niður. Snæfellingar stilltu upp í þriggja stiga skot á síðustu sekúndunum en það geigaði. Það voru því Hamarsmenn sem fóru með sigur af hólmi, 103-100, í æsispennandi leik í Hveragerði.

Anders Gabriel Andersteg átti stórleik fyrir Snæfell, skoraði 39 stig, tók sex fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Brandon Cataldo skoraði 18 stig, tók tíu fráköst og gaf fimm stoðsendingar, Aron Ingi Hinriksson var með 13 stig og Pavel Kraljic skoraði tólf. Ísak Örn Baldursson og Benjamín Ómar Kristjánsson skoruðu sex stig hvor, Dawid Einar Karlsson var með fjögur stig og Viktor Birnir Ásmundarson skoraði tvö.

Í liði Hamars var Everage Lee Richardson atkvæðamestur með 32 stig, tólf fráköst og fimm stolna bolta. Ragnar Jósef Ragnarsson skoraði 25 stig, Pálmi Geir Jónsson var með 14 stig og tíu fráköst og Toni Jelenkovic skoraði 14 stig einnig.

Snæfell situr í sjöunda sæti deildarinnar með tvö stig eftir fjóra leiki. Næst leika Hólmarar gegn Hetti í kvöld, mánudaginn 28. október.

Líkar þetta

Fleiri fréttir