Ljósm. úr safni/ jho.

Grundfirðingar og Skagamenn töpuðu

ÍA og Grundarfjörður léku í Íslandsmótinu í körfuknattleik um helgina. Ekki urðu úrslitin eins og liðin vonuðust eftir fyrirfram, því bæði máttu þau sætta sig við tap að þessu sinni.

Skagamenn fengu B lið Fjölnis í heimsókn í 2. deild karla á föstudagskvöld. Gestirnir höfðu yfirburði í leiknum og sigruðu að lokum stórt, 65-107. Eftir leikinn situr ÍA í níunda sæti deildarinnar með fjögur stig eftir fimm leiki.

Næst leika Skagamenn gegn liði Hrunamanna föstudaginn 8. nóvember næstkomandi. Sá leikur fer fram á Flúðum.

Á laugardag öttu Grundfirðingar kappi við Álftanes B í Grundarfirði í 3. deild karla. Gestirnir voru feti framar á flestum sviðum og lauk leiknum með tíu stiga sigri Álftnesinga, 80-90. Grundfirðingar sitja í fimmta sæti deildarinnar með tvö stig eftir þrjá leiki.

Næst leika Grundfirðingar dagana 1. og 2. nóvember næstkomandi, þegar þeir leika tvisvar sinnum á tveimur dögum gegn Vestra B, fyrst í Bolungarvík en svo á Ísafirði.

Líkar þetta

Fleiri fréttir