Páll spilar á rabarbaraflautu innan við glugga í slaghörpuhúsinu. Bæjargilið speglast í glugganum. Tónleikarnir nefnast Hjartað í fjallinu. Ljósm. mm.

Hjartað í fjallinu

Hátíðartónleikar tileinkaðir Páli á Húsafelli sextugum

,,Hjartað í fjallinu“ er tónlistardagskrá sem flutt verður í Reykholtskirkju laugardaginn 2. nóvember nk. tileinkuð listamanninum Páli Guðmundssyni á Húsafelli sem fagnaði sextíu ára afmæli fyrr á þessu ári. Flytjendur eru Kammerkór Suðurlands undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar ásamt Reykholtskórnum undir stjórn Viðars Guðmundssonar. Ýmis hljóðfæraleikarar leika með. Meðal annarra Herdís Anna Jónsdóttir víóluleikari og slagverksleikarar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands, þeir Frank Aarnink og Steef van Oosterhout sem leika á steinhörpur Páls, ásamt honum sjálfum. Þá hefur Páll hannað ýmis hljóðfæri, þ.á.m. panflautur úr rabarbara, sem hann leikur sjálfur á.

Borgfirðingurinn Hjörtur Hjartarson frá Fljótstungu leikur einnig á ýmsar flautur Páls. Nýjustu hljóðfæri hans eru síðan steinflautur sem leikið verður á nú í fyrsta sinn opinberlega.
Kammerkór Suðurlands og Hilmar Örn hafa verið í farsælu samstarfi við Pál um árabil. Í júní síðastliðnum heiðraði kórinn Pál í tilefni sextugs afmælis hans á Sönghátíð í Hafnarborg með flutningi fjölmargra laga hans í útsetningum ýmissa tónskálda, þ.á.m. Þóru Marteinsdóttur, Abélia Nordmann, Iveta Licha og Hilmari Erni, stjórnanda kórsins. Páll leikur og semur tónmyndir á nátúruhljóðfæri sín á einstakan og óhefðbundinn hátt. Samspil tóna og texta er afar sterkt, enda eru náttúran og Páll eitt þegar kemur að list hans.

Kammerkór Suðurlands hefur frumflutt margar tónmyndir Páls m.a. á Listahátíð í Reykjavík 2014 og við Verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs í Hörpu 2016 sem sjónvarpað var beint á Norðurlöndum. Þar var flutt verk Páls Norðurljós, við ljóð Einars Benediktssonar, sem mun hljóma í flutningi beggja kóranna á þessum tónleikum.

Aðspurður segir Páll að hann hlakki mikið til tónleikanna og er þakklátur fyrir þann heiður sem honum er sýndur af listafólkinu. Ljóðin við verk Páls eru í flestum tilfellum ort til hans eða um hann, eins og t.d. titillag tónleikanna ,,Hjartað í fjallinu” eftir Sigurð Pálsson. Fyrir hlé á tónleikunum í Reykholtskirkju verða flutt lög Páls, útsett af ýmsum, en allt við ljóð sem ort hafa verið um Pál. Eftir hlé sameinast Reykholtskórinn Kammerkór Suðurlands. Flutt verður verkið Norðurljósin í heild sinni, lög eftir Pál við ljóð Einars Ben við útsetningu Örlygs Ben. Þetta verk var frumflutt í Elborgarsal Hörpu þegar Norðurlandaverðlaunin voru afhent 2015.

Líkar þetta

Fleiri fréttir