Stórleikur Keiru Robinson nægði Skallagrími ekki gegn sterku liði KR. Ljósm. Skallagrímur.

Töpuðu á lokasprettinum

Skallagrímskonur máttu sætta sig við tap gegn KR, 68-83, þegar liðin mættust í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik í gærkvöldi. Leikið var í Borgarnesi.

Gestirnir höfðu yfirhöndina í fyrsta leikhluta og leiddu með átta stigum að honum loknum, 17-25. Þær juku forskotið í ellefu stig í upphafi annars fjórðungs en þá tók Borgarnesliðið heldur betur við sér. Með góðum leik tókst Skallagrímskonum hægt en örugglega að minnka muninn í eitt stig, 35-36, skömmu fyrir hléið. KR-ingar skoruðu síðustu stig leikhlutans og leiddu með fjórum stigum í hálfleik, 39-35.

Leikurinn var í járnum í þriðja leikhluta, þar sem liðin fylgdust að í einu og öllu. Skallagrímskonur skoruðu 25 stig gegn 21 stigi gestanna í leikhlutanum og við hæfi að staðan væri jöfn fyrir lokafjórðunginn, 60-60. Þar réðu KR konur hins vegar lögum og lofum. Snemma í leikhlutanum tókst þeim að slíta sig frá Skallagrími og þær litu aldrei til baka eftir það. Góður lokasprettur skilaði KR 15 stiga sigri, 68-83.

Keira Robinson átti stórleik í liði Skallagríms, skoraði 38 stig, tók tíu fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Emilie Hesseldal skoraði 14 stig, tók 14 fráköst og stal fimm boltum. Maja Michalska var með átta stig, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði fjögur og gaf fimm stoðsendingar og þær Árnína Lena Rúnarsdóttir og Arna Hrönn Ámundadóttir skoruðu tvö stig hvor.

Í liði KR var Danielle Rodriguez atkvæðamest með 24 stig, níu stoðsendingar og fimm fráköst. Ástrós Lena Ægisdóttir skoraði 23 stig og tók fimm fráköst, Sana Orazovic skoraði 16 stig og tók átta fráköst og Hildur Björg Kjartansdóttir skoraði tíu stig og tók sjö fráköst.

Skallagrímur situr eftir leikinn í fjórða sæti deildarinnar með fjögur stig, jafn mörg og Keflavík og Snæfell í sætunum fyrir neðan. Næst leika Borgnesingar gegn Keflvíkingum á útivelli miðvikudaginn 30. október.

Líkar þetta

Fleiri fréttir