Eignir hljómlistarsjóðs renna til Nikkolínu

Hljómlistarsjóður Steinars Guðmundssonar frá Hamraendum var stofnaður árið 1966, til minningar um Steinar Guðmundsson, sem var fæddur 29. júní 1938 og lést af slysförum í Reykjavík 15. des. 1965. Steinar fæddist og ólst upp á Hamraendum í Miðdölum. Þar var tónlist í hávegum höfð. Gróa Sigvaldadóttir húsfreyja söng í kirkjukórnum sem eiginmaður hennar, Guðmundur Baldvinsson bóndi stjórnaði. Hann var kirkjuorganisti og samdi ljóð og lög sem nokkur hafa varðveist.

Steinar var næstyngstur af systkinunum, sem öll höfðu góða tónlistarhæfileika. Steinar fór ungur að leika á hljóðfæri á samkomum um Dali og víðar, við miklar vinsældir og hafði fest kaup á Cordovox harmoniku, sem var með þeim bestu sem völ var á þá.

Það má segja að í framhaldi af stofnun hljómlistarsjóðsins hefjist umræður um stofnun tónlistarskóla í Dalasýslu, sem varð svo að veruleika 10 árum seinna, 1976.

Í stjórn sjóðsins frá stofnun 1966 og til 2009 voru Brynjólfur Aðalsteinsson, Sigvaldi Guðmundsson, Skjöldur Stefánsson og Magnús Kristjánsson.

Árið 2018 ákvað stjórnin að leggja sjóðinn niður enda hefur hann engan fastan tekjustofn og vinum og samferðamönnum Steinars fækkar nú óðum. Einnig var ákveðið að eignir sjóðsins rynnu til harmonikufélagsins Nikkolínu og verði þá til styrktar tónlistarlífi í Dalasýslu.

Síðustu stjórn skipuðu Magnús Kristjánsson frá Seljalandi, Sigvaldi Guðmundsson frá Kvisthaga og Halldór Þ. Þórðarson á Breiðabólstað.

Líkar þetta

Fleiri fréttir