Boðið var upp á andlitsmálun fyrir börnin. Ljósm. þa

Fylltu Klifið á Fjölmenningarhátíð

Fjölmenningarhátíð var haldin í Klifi í Ólafsvík síðastliðinn sunnudag. Var þetta í fimmta skipti sem hátíðin er haldin og tókst mjög vel til í ár. „Við náðum að fylla Klifið,“ sagði Rebekka Unnarsdóttir verkefnastjóri Átthagastofu í samtali við Skessuhorn. Á hátíðinni býðst gestum að smakka þjóðarrétti frá ýmsum löndum en í ár voru hópar frá sex þjóðum sem buðu upp á mat; fólk frá Póllandi, Bosníu, Noregi, Þýskalandi, Rúmeníu og Íslandi. „Þetta gekk allt rosalega vel og ég veit ekki betur en allir hafi verið mjög ánægðir. Skemmtiatriðin voru líka mjög flott og maturinn góður, en mikill metnaður var lagður í allt,“ segir Rebekka.

Þá voru fáein félög sem settu upp kynningarbása á hátíðinni og kynntu þar starfsemi sína fyrir íbúum. Kvenfélag Ólafsvíkur var með bás auk þess sem Símenntunarmiðstöðin, Svæðisgarðurinn Snæfellsnes, Krabbameinsfélögin á svæðinu, félags- og skólaþjónustan, Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull, HSH og ungmennafélagið Víkingur/Reynir voru með kynningarbása. „Krakkar frá Grunnskóla Snæfellsbæjar sýndu verkefni sín sem þau gerðu í tengslum við menningarmót sem haldið var í skólanum í vikunni fyrir hátíðina,“ segir Rebekka. Soroptimistaklúbbur Snæfellsness sá um að hella upp á kaffi, hreinsa rusl, vaska upp og aðstoða á meðan á hátíðinni stóð. „Þetta er annað árið í röð sem þær taka þetta verkefni að sér og dýrmætt að njóta vinnusemi þeirra og mikil hjálp þar sem allt þarf að gerast hratt á meðan hátíðin stendur yfir,“ segir Rebekka ánægð.

Líkar þetta

Fleiri fréttir