Ólafur Páll Gunnarsson og Hlédís Sveinsdóttir, skipuleggjendur Heima Skaga hátíðarinnar. Ljósm. Stella María Arinbjargardóttir.

Tónlistarhátíðin Heima-Skagi haldin í fyrsta sinn

Tónlistarhátíðin Heima-Skagi verður haldin í fyrsta sinn á Akranesi föstudaginn 1. nóvember næstkomandi. Er hún haldin í tengslum við menningarhátíðina Vökudaga, sem stendur yfir í bænum frá 24. október til 3. nóvember. Á Heima-Skaga hátíðinni munu koma fram sex tónlistarmenn/flytjendur, sem spila tvisvar sinnum hver á sex stöðum á Akranesi. Á einu kvöldi verða því haldnir samtals tólf tónleikar. Fyrst og fremst fer hátíðin fram í heimahúsum, þar sem íbúar bjóða heim, en einnig verða tónleikar í Bárunni brugghúsi og Akraneskirkju.

 

Eftirvænting í loftinu

Skipuleggjendur hátíðarinnar eru Ólafur Páll Gunnarsson og Hlédís Sveinsdóttir. Fyrirmyndin að hátíðinni er fengin frá færeyska bænum Gøtu, í gegnum Hafnarfjörð. Þar hafa tónlistarhátíðir með sambærilegu sniði verið haldnar undanfarin ár. En hvernig kom það til að ákveðið var að heimfæra þessa hugmynd upp á Akranes? „Ég er búinn að reyna að láta mér detta í hug einhverja sniðuga lítil tónlistarhátið til að halda hérna síðan ég flutti aftur á Skagann en ekki fengið neina betri hugmynd en þessa. Enda er þetta mjög góð hugmynd og gott konsept sem er bæði skemmtilegt og þakklátt í framkvæmd,“ segir Óli Palli í samtali við Skessuhorn, „Þetta hefur alveg svínvirkað í Hafnarfirðinum svo núna var ákveðið að kýla á þetta á Skaganum,“ segir hann.

 

„Á að vera notalegt“

Þeir sem koma fram á Heima-Skaga hátíðinni í ár eru Friðrik Dór, Högni Egilsson, Jónas Sig, Ragnheiður Gröndal, Úlfur Úlfur og Valgeir Guðjónsson. Tónlistarflutningur verður í fjórum heimahúsum í gamla bænum á Akranesi; Vesturgötu 32, Vesturgötu 71b, Skólabraut 20 og Grundartúni 8. Auk þess verða tónleikar í Akraneskirkju og Bárunni brugghúsi. „Allir staðirnir eru á Neðri-Skaganum, í góðu göngufæri hver frá öðrum. Það er lykilatriði í þessu. Þetta er innihátíð og fólk á aðeins að vera örfáar mínútur að skjótast á milli staða,“ segir Óli Palli. „Í heimahúsum, þar sem komast bara 15-20 manns inn, þá skapast oft mikil nánd á tónleikum sem mörgum þykir skemmtilegt. Þá erum við einnig mjög þakklát kirkjunni fyrir að hafa tekið okkur opnum örmum sem og Bárunni brugghúsi. Hugmyndin er að þetta sé notalegt, en stundum verður auðvitað líka mikið stuð. En það er ekkert sem segir að þetta tvennt geti ekki farið saman. Það getur verið mjög notalegt á tónleikum þó það sé líka mikið stuð. Við skipuleggjendurnir erum mjög spenntir að sjá hvernig þetta kemur út,“ segir Óli Palli að endingu.

 

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir