Fyrsta landsliðsmark Arnórs

Tvítugi Skagamaðurinn Arnór Sigurðsson, sem spilar nú sem atvinnumaður í knattspyrnu með CSKA Moskvu, skoraði sitt fyrsta mark fyrir íslenska landsliðið þegar Ísland vann Andorra 2-0 á Laugardalsvelli í gærkvöldi. Arnór var valinn í byrjunarlið leiksins eftir að hafa setið á bekknum í leiknum gegn Frökkum á föstudaginn og má segja að hann hafi komið sterkur inn. Leikurinn í heild var fremur bragðdaufur fyrstu mínúturnar, en á 38. mínútu dró til tíðinda þegar Arnór kom Íslandi yfir og færðist í kjölfarið meira líf í leikinn. Það var svo Kolbeinn Sigþórsson sem kom með annað mark Íslands á 65. mínútu. Með því marki jafnaði Kolbeinn markamet Eiðs Smára Guðjohnsen fyrir landsliðið. Ísland situr nú í þriðja sæti riðilsins með 15 stig, fjórum stigum á eftir Frakklandi og Tyrklandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir